Berjast fyrir leyfi til að mega fullnýta nýja hjúkrunarheimilið

Yfirstjórn Heilbrigðisstofnunar Austurlands hefur barist fyrir fjármunum frá heilbrigðisráðuneytinu til að geta nýtt öll þau rými sem til staðar eru á hjúkrunarheimilinu Dyngju sem opnað var fyrir tveimur árum. Tugir bíða eftir hjúkrunarrýmum á Austurlandi.


Þetta kom fram í máli Nínu Hrannar Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá HSA, á íbúafundi um heilbrigðismál á Fljótsdalshéraði fyrir skemmstu.

Á Dyngju standa sex hjúkrunarrými auð á sama tíma og 50 einstaklingar bíða eftir slíkum rýmum á Austurlandi. Þar af eru 17 með rými á Dyngju sem fyrsta val og þrír í viðbót sem aukaval.

Sérstaka fjárveitingu þarf til að geta opnað hjúkrunarrýmin. Þótt uppsöfnuð skuld upp á rúmar 200 milljónir hafi verið skorin af HSA í fyrra eftir að stofnunin var rekin innan fjárheimilda tvö ár í röð er reksturinn enn í járnum. Stjórnendur hennar segja við blasa 3% niðurskurð í ár, þrátt fyrir fyrirheit um innspýtingu, og hallinn eftir fyrstu tvo mánuði ársins var tvær milljónir.

Fólkið bíður í misslæmri stöðu

Stefnan hefur verið að fjölga úrræðum sem gera fólki kleift að búa lengur heima hjá sér. Nína Hrönn sagði að fjölga þyrfti hjúkrunarrýmum, bæði á Héraði og í Fjarðabyggð. Þá væru að koma inn hópar af yngra fólki sem þyrfti mikla þjónustu.

Á biðlista kemst enginn nema búið sé að klára öll úrræði heimahjúkrunar. „Þetta fólk bíður í misslæmri aðstöðu heima hjá sér,“ sagði hún aðspurð um aðstæðurnar.

Rétt að leggja áherslu á öldrunarþjónustuna

Á fundinum var meðal annars rætt um forgangsröðum í heilbrigðisþjónustu á Héraði en rýmum fyrir almenna innlögn er vart fyrir að fara frá Egilsstöðum eftir árið 2009. Þeir sem leggjast þurfa inn á sjúkrahús eru því sendir á Norðfjörð eða út úr fjórðungnum.

Halla Eiríksdóttir, rekstrarstjóri á Egilsstöðum, sagði að nauðsynlegt hefði verið að auka öldrunarþjónustu á staðnum.

„Það var til skammar hvernig við hugsuðum um aldraða. Það snérist allt um 3-4 einstaklinga í sjúkrarúmum meðan 30 einstaklingar bjuggu þarna árið um kring við lágmarksþjónustu. Læknarnir voru fáir og tími þeirra fór í að sinna þeim veiku.“

Halla benti á að sjúklingar þyrftu mismunandi þjónustu og læknar hefðu mismundi þekkingu. Ekki væri öll þjónusta til á sama stað. „Þið eigið flest bíla, þið farið ekki með bílinn ykkar á hvaða verkstæði sem er.

Við eigum að verja það að gera suma hluti vel en ekki alla hluti illa. Við getum haldið utan um hjúkrunarheimili og sent þá bráðveiku á viðkomandi staði. Með að ætla að keppa við Norðfjörð gröfum við undan sjálfum okkur í leiðinni þegar við deilum þeim sem vinna verkin út.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.