Berjaspretta best á Austfjörðum

Víðast hvar má finna mikla berjasprettu í ár. Á Austfjörðum og Vestfjörðum má finna bestu staðina til berjatínslu, en því er að þakka þeim snjóþunga sem safnast yfir vetrartímann.

„Berjasprettan er meiri í ár en önnur ár. Víðast hvar má finna ber, þó misstór eftir landshlutum“, segir Halldór Stefánsson hjá Náttúrustofu Austurlands.

Halldór segir mikla sprettu vera um allt land þó þau séu missþroskuð. Hann telur að eftir 1-2 vikur verði berin þroskaðari og tilvalin til berjatínslu.

„Austfirðir og Vestfirðir fá bestu berin eins og önnur ár, og er það helst út af snjóþunga á veturnar og skjólsælu yfir sumartímann. Slíkt veðurfar er afar hagstætt fyrir þroska berjanna. Annarsstaðar eru sumrin kaldari svo berin eru smá þau þó séu vissulega til staðar“, segir hann.

Bergrún Arna Þorsteinsdóttir sagði leiðina niður til Mjóafjarðar hafa löngum skært sig af aðalbláberjum. „Hallormsstaðarskógur hefur að geyma hrútaber og skógarber, en hvar krækiberin eru nú í ár er ég ekki viss um“, segir Bergrún Arna Þorsteinsdóttir, aðstoðarskógarvörður í Hallormsstaðarskógi.

Halldór bendir fólki á að leita að berjum í snjódældargróðri sem snýr á móti sólu og byrja neðst í brekkum og fikra sig hærra upp.

„Ég á mína leynistaði sem ég gef þó ekki upp“, segir Halldór aðspurður um besta staðinn fyrir berjatínsluna.

Bergrún Arna, til vinstri í mynd, við sultugerð úr berjum úr Hallormsstaðarskógi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.