Orkumálinn 2024

Baráttudagur verkalýðsins: Auðmenn allra landa hafa sameinast

„Verkalýðsbaráttan er ekkert búin, en hún er að breytast,“ var inntak ávarps AFLs starfsgreinafélags á alþjóðabaráttudegi verkalýðs í gær. Launafólk verði að vera samstíga í baráttu sinni til að verja þau kjör sem áunnist hafa.


„Við héldum kannski að við hefðum náð einhverjum samfélagssáttmála og síðan væri það vinna að útfæra hann – auka smátt og smátt við réttindi og bæta kjör og að þannig væri tími hinna stóru átaka að mestu liðinn. Af fréttum undanfarinna vikna virðist vera sem að þetta sé allt misskilningur,“ segir í ávarpinu.

Þar var meðal annars lagt út frá afhjúpunum Panamaskjalanna sem staðfesti það sem löngum hafi verið haldið fram.

„Að auðstéttir allra landa hafa sameinast í því að skjóta eignum sínum undan og fela þær til að losna við skattgreiðslur. Einnig geta menn stundað hvers kyns viðskipti í skjóli nafnleyndar – mögulega siðlaus innherjaviðskipti sem ekki stæðust neina skoðun ef vitað væri hverjir stæðu á bak.

Þetta er hægt af því að það eru valda-og auðstéttirnar sem skrifa lögin og skipa í embættismanna og dómarastöður. Þeir mynda sín á milli ,,viðskiptasambönd“ þar sem sameiginlegar eignir þjóðarinnar eru færðar nokkrum sinnum milli gervifyrirtækja uns þeim er haganlega komið í skattaskjólum í útlöndum.“

Eiga ekki allir þegnar landa að greiða skatta?

Auðstéttin beiti fyrir sig stjórnmálum og fjölmiðlum til að verja og helst auka við fenginn auð. Launafólk taki hins vegar á sig ábyrgðina af því að halda kerfunum gangandi.

„Skattsvik og undanskot eigna er meinsemd sem er að ganga frá samfélagsvitund um allan heim dauðri. Skatttekjur frá launafólki dugar varla til að halda uppi grunnþjónustu á meðan auðstéttir stela öllu sem ekki er naglfast og koma undan til aflandseyja.

Því eru innviðir margra ríkja að bresta. Menntakerfi og heilbrigðisþjónusta að verða forréttindi hinna ríku og gengið er harkalega gegn rétti launafólks og víða stundaðar grímulausar ofsóknir á verkalýðsfélögum og rétti manna til að stofna félög og vernda hagsmuni sína.

Er það ekki hlutverk stjórnvalda að sjá til þess að allir þegnar landsins greiði skatta til samfélagsins eftir þeim reglum sem um skattgreiðslur gilda á hverjum tíma?

Eða á það að vera hlutverk launafólksins eins, að halda uppi því velferðarkerfi sem við gerum kröfu um að hafa? Nei og aftur nei. Allir þurfa að taka þátt.“

Launafólk ber ábyrgð á kjarasamningunum

Samhliða aukist krafa á einkavæðingu í heilbrigðis- og menntakerfi sem löngum hafi verið grunnstoðirnar í jafnara samfélagi.

„Við hljótum að spyrja okkur hvort barátta okkar skili nægilegum árangri. Ef við horfum til þess að á síðustu 2 – 3 áratugum hefur orðið til fjölmenn stétt auðmanna sem virðast eiga miklu meiri auðæfi en áður hefur þekkst hér á landi – en á sama tíma er svo þrengt að allri alþýðu manna að fólk er farið að neita sér um heilbrigðisþjónustu og börn efnaminna fólks er farið að hrökklast úr námi – þá er augljóslega eitthvað mikið að.

Launafólk hefur tekið að sér að bera ábyrgð á efnahagskerfinu með gerð hinna svokölluðu ábyrgu kjarasamninga. Með því verða launin okkar alltaf afgangsstærð þegar fjármálakerfið er búið að taka sitt.

Við verðum ekki vör við að aðrir taki ábyrgð því launaskrið stjórnenda og launaskrið í fjármálakerfi er ekki í neinu samræmi við launaþróun almennings. Kannski eigum við að kasta ábyrgðinni frá okkur og freista þess að taka til okkar eins mikið og við getum og gera það með átökum.“

Græðgi er góð

„Tími hinna stóru átaka er að renna upp. Þessi átök verða alþjóðleg, þau verða flókin og þau verða erfið. Ef við ætlum ekki að láta auðstéttirnar ná öllum völdum þurfum við að rísa upp. Það þarf að breyta regluverkinu og fjármálakerfinu og þar verðum við að byrja á því að taka til hjá okkur.

Það er nefnilega þannig að meðal mótaðila okkar við samningaborðið sitja menn sem hafa það að heimspeki að græðgi sé góð, að græðgi skapi hvatningu til verðmætasköpunar.

Þetta er sú heimssýn sem hefur barið á þjóðinni í mörg ár: Græðgi er góð, skattar eru slæmir, verkalýðsbarátta er gamaldags, græðgi er góð. Það er sama speki og telur atvinnulausa og öryrkja til bagga á samfélaginu en finnst sjálfsagt að veita milljörðum til að styrkja tilteknar atvinnugreinar.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.