„Bankinn þarf að standa við sín fyrirheit“

„Okkur hjá Fjarðabyggð finnst samfélagið eiga það inni að hafa hraðbanka á hverjum stað vegna þeirra hagræðinga sem hefur átt sér stað með lokun bankaútibúa á síðustu árum,“ sagði Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar í samtali við Austurfrétt í hádeginu, í tengslum við lokun hraðbankaþjónustu á Stöðvarfirði.



Eins og Austurfrétt greindi frá hér fyrr í vikunni, eru íbúar á Stöðvarfirði eru verulega ósáttir við að Landsbankinn ætli ekki að halda úti hraðbanka á staðnum, en hann hefur verið eina baknaþjónustan á staðnum síðan útibúi hans var lokað fyrir rúmum fimm árum.

Bankinn leggur til að þjónustan verði flutt í verslunina Brekkuna á Stöðvarfirði, í því formi að hún annist reiðufjárafgreiðslu fyrir bankann á Stöðvarfirði. Við þetta eru íbúar ekki sáttir og bera meðal annars fyrir sig þeirri staðreynd að hraðbankaþjónustu eigi að vera hægt að nálgast allan sólarhringinn.

Í síðasta bréfi Landsbankans til Stjórnar Íbúasamtakanna á Stöðvarfirði segir meðal annars:

„Með því að gera samning við Brekkuna um reiðufjárafgreiðslu viljum við tryggja að Stöðfirðingar og gestir þeirra hafi áfram góðan aðgang að reiðufé. Um leið styður samningurinn við verslunarrekstur á staðnum. Landsbankinn leggur mikla áherslu á að veita góða þjónustu um land allt og þjónustunet bankans á Austurlandi er þéttriðið. Með samningi Landsbankans og Brekkunnar verður áfram hægt að nálgast reiðufé á Stöðvarfirði enda þótt það sé ekki allan sólarhringinn.“

Þar segir einnig að vonir bankans sé sú að reynslan af reiðufjárafgreiðslunni verði góð og að hún uppfylli þarfir Stöðfirðinga og gesta þeirra fyrir aðgang að reiðufé.

„Afgreiðslufrestur nýs hraðbanka er 8-12 vikur en komi það í ljós, að reiðufjárafgreiðslan reynist óviðunandi lausn og svari hún ekki þeim þörfum sem henni er ætlað, erum við reiðubúin að endurskoða þessa ákvörðun í ljósi reynslunnar.“


Okkar krafa er alveg skýr

Páll Björgvin segir að alltaf hafi verið talað um að önnur tæki kæmu í stað hefðbundinna útibúa, til dæmis hraðbankar eða þá bankaþjónusta af og til í færanlegum banka.

„Okkar skoðun er því að Landsbankinn verði að bregðast við þessum fyrirheitum til framtíðar. Við teljum stöðu Landsbankans sterka á svæðinu, en hann var með útibú á öllum stöðum og er þess vegna með sterka markaðsstöðu. Þess þá heldur ætti hann að leita leiða til að styrkja þjónustu sína, ekki horfa á þetta einangraða tilfelli, heldur út frá heildinni, en þeir eru að þjóna ölfugum byggðakjörnum í Fjarðabyggð.

Við vitum að langan tíma tekur að fá nýjan hraðbanka og gott að Landsbankinn skuli bregðast við og bjóða sína þjónustu í Brekkunni á meðan, en krafa okkar er mjög skýr; bankinn þarf að standa við sín fyrirheit og hafa hraðbanka á öllum stöðum,“ segir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð


Eigum við kannski bara öll að flytja í burtu?

Una Sigurðardóttir, rekstraraðili Sköpunarmiðstöðvarinnar á Stöðvarfirði, segir að íbúm staðarins sé gróflega misboðið.

„Ég var að spjalla við eldri konu í gær sem lagði til að við værum með setuverkfall í útibúi Landsbankans á Reyðarfirði.

Íbúar héldu að það væri hreinlega ekki hægt að taka meira í burtu, bankinn er farinn, pósthúsið, umræða var að leggja skólann niður, hvað næst? Eigum við kannski bara öll að flytja í burtu?

Það er fullt af fólki á Stöðvarfirði sem er endalausta að berjast við að gera staðinn hæfann til búsetu og þetta kemur algerlega þvert á alla þá vinnu og kemur sér illa fyrir alla starfsemi sem oftar en ekki byggir á því að reiðufé sé til staðar, en þó svo Landsbakninn hafi bent á að opnunartími Brekkunnar sé rúmur, þá hentar hann kannski ekki alltaf.

Þetta snýst heldur ekki bara um einhverjar tölur í exelskjali, heldur líka samfélagslega ábyrgð. Af hverju má ekki vera einum banka minna í einhverju þéttbýli, það er ekki eins og fólk þar þurfi að keyra um hættulegan vegakafla í næsta hraðbanka eða útibú, nú eða þá bíða efitr að kjörbúðin opni ef það vantar pening.

Það er heldur ekki eins og við séum að biðja um mikið, bara sjálfsagða þjónustu. En, Stöðfirðingar gefast ekki upp, það er alveg á hreinu,“ segir Una.

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.