Austurland hástökkvarinn í nýtingu hótelherbergja: Tækifæri þegar þéttist á öðrum stöðum

Mesta aukning í nýtingu hótelherbergja á tímabilinu nóvember-janúar er á Austurlandi. Nýtingin nú er nær þrefalt betri en fyrir ári. Sérfræðingur segir Austurland vekja athygli þegar önnur svæði sé að fyllast.


Þetta kemur fram í tölum sem Vopnfirðingurinn Konráð S. Guðjónsson í greiningardeild Arion-banka kynnti á ráðstefnu Sambands sveitarfélaganna um ferðaþjónustu nýverið.

Nýting hótelherbergja á Austurlandi var 28% í nóvember 2016 – janúar 2017 en var 10% á sama tíma ári áður. Nýting herbergja batnar um nær allt land en eykst hvergi jafn mikið og eystra. Þessir mánuðir hafa til þessa verið dauðasti tíminn í ferðaþjónustu á landsbyggðinni.

Hún er þó fjarri því að ná nýtingunni á Höfuðborgarsvæðinu, sem er 86% eða Suðurlandi eða Suðurnesjum, en er meiri en á Norðurlandi og Vesturlandi/Vestfjörðum þar sem hún er um 20%.

Þessi mikla nýting á gistirýmum syðra er það sem hvetur ferðamennina til að skoða fleiri svæði. „Það er skiljanlegt þar sem öll gistirými á höfuðborgarsvæðinu og víðar eru full allan ársins hring,“ segir Konráð.

Fjölgunin smitast meira út á land

Greiningardeildin spáir 2,2 milljónum ferðamanna til landsins í ár og 2,5 milljónum á næsta ári. Útlit er fyrir að fjölgunin haldi því áfram en Konráð varaði við að spár hafi reynst ónákvæmar og fjölgun minni en spár ISAVIA hafi gert ráð fyrir. Mesta vaxtarskeiðinu sé því mögulega lokið.

En ferðamönnunum fjölgar samt og í því felast möguleikar Austurlands. „Betri nýting hótelanna kemur fyrst og fremst til af gríðarlega hraðri fjölgun ferðamanna síðustu mánuði og ár sem virðist í auknu mæli smitast út á land.“

Eins séu blikur á lofti því Ísland sé að verða orðið dýrasta land í heimi. Þá reyni á þolmörk ýmissa innviða, svo sem vegakerfisins og náttúrunnar. Í máli Konráðs kom fram að uppsöfnuð fjárfestingaþörf í vegakerfinu sé um 20 milljarðar króna. Þá benti hann á að komugjöld eða gjaldtaka á einstökum ferðamannastöðum væru bestu leiðirnar til gjaldtöku af ferðamönnum.

En þótt vísbendingar séu um að víða reyni á þolmörkin telur Konráð að Austurlandi geti vaxið áfram. „Já vafalaust, svo lengi sem ferðamönnum fækkar ekki. Það geta leynst tækifæri í því að margir ferðamannastaðir séu orðnir þéttsetnir.“

Til að Austfirðingar geti nýtt styrkleiki fjórðungsins sem best þarf góðar samgöngur. „Til dæmis gætu verið tækifæri í beinu flugi til og frá Keflavík til Egilsstaða, líkt og verið er að gera tilraunir með frá Akureyri.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar