Austfirðingur í Tyrklandi: Tókum eftir að allir voru að horfa á sjónvarpið

Fáskrúðsfirðingurinn Þórunn Ólafsdóttir eyddi síðustu nótt í tyrkneskum strandbæ en hópur úr hernum reyndi að ræna völdum í landinu í gærkvöldi. Hún segir átökin í Istanbúl og Ankara lítil áhrif hafa haft þar.


Þórunn var í gærkvöldi stödd í Kusadasi á suðurströnd Tyrkland. Þar ætlaði hún að eyða helginni ásamt manni sínum Kinan, sem starfar á grísku eyjunni Samos sem er klukkustundar siglingu í burtu.

„Það var allt í ró og spekt þegar við komum um kvöldmatarleytið. Síðan tókum við eftir að allir voru að horfa á sjónvarpið, hvar sem við komum.

Þar sem hvorugt okkar talar tyrknesku var erfitt fyrir okkur að fylgjast með hvað var í gangi en við gátum flett upp á netinu og hittum líka búðareiganda sem setti okkur inn í málin.“

Valdaránið hófst á ellefta tímanum að staðartíma. Herþotur flugu lágflug yfir stærstu borginni Istanbúl og höfuðborginni Ankara og skriðdrekar óku um götur. AK flokkur forsetans Erdogan fer með völd í Tyrklandi. Hann er afar umdeildur en stjórnvöld hröktu uppreisnarmennina, sem komu úr röðum hersins, til baka á nokkrum klukkustundum.

Kusadasi er álíka fjarri stórborgunum tveimur og Egilsstaðir eru frá Reykjavík. Lítil áhrif fundust þar af valdaráninu. „Menn reyndu að gera lítið úr þessu, trúlega til að halda fólki rólegu en það vissi enginn hvað var í gangi.

Við urðum vör við að stemmingin breyttist skyndilega og öllu var lokað í snatri en vanalega er opið lengi í Tyrklandi. Þá hófust svolítil mótmæli, fólk þusti fram á götur með tyrkneska fánann og keyrði um flautandi.“

Þórunn segir þessa ólgu hafa varað í bænum framundir morgun. Hún hafi samt aldrei upplifað sig í neinni hættu. Hún og maður hennar Kinan héldu aftur til Samos í morgun, sólarhring fyrr en áætlað var en Þórunn tekur fram að það hafi verið af öðrum orsökum.

„Ég hefði alveg treyst mér til að vera áfram í Kusadasi. Í morgun var eins og ekkert hefði í skorist þar. Tyrkland er stórt land og það sem gerist í Istanbúl og Ankara hefur ekki endilega áhrif strax annars staðar.“

Um 260 létust í átökunum í nótt, þar af um 100 uppreisnarmenn. Áætlað er að um 3000 uppreisnarmenn séu í haldi tyrkneskra stjórnvalda. Óljóst er hvert framhaldið verði en stjórnvöld hafa heitið því að refsa uppreisnarmönnum.

Þórunn lýsir atburðarásinni sem „undarlegri.“ Ljóst sé að Erdogan sé ekki vinsæll en Tyrkir hafi ekki vitað hvað þeim hafi átt að finnast um atburðarásina þegar hún fór af stað. Margir hafi verið til í að sjá forsetann fara frá völdum en þeir hafi viljað gera það í gegnum lýðræðislegar kosningar en ekki með hervaldi. „Fólk fór ekki út á göturnar til að styðja Erdogan heldur til að styðja lýðræðið.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.