Austfirðingar telja sig öruggari en aðra

Íbúar á Austurlandi telja sig öruggari en aðra landsmenn miðað við nýja könnun Ríkislögreglustjóra. Áhyggjur af innbrotum eru hvergi lægri en kynferðisbrot virðast tíðari.

82% íbúa á Austurlandi telja sig mjög örugga eina á ferli í sínu byggðarlagi eftir að myrkur er skollið á. Ekkert annað landssvæði nær þar yfir 67%. Enginn í fjórðungnum taldi sig óöruggan.

Svarið snýst hins vegar við þegar spurt er hversu öruggt fólk telji sig í miðborg Reykjavíkur eftir myrkur um helgar, þar eru Austfirðingar óöruggari með sig en aðrir, 80% Austfirðinga upplifa sig óörugga eða mjög óörugga. Almennt telur fólki sig óöruggt á ferli í borginni þá en sú regla gildir að þeir sem búa næst telja sig öruggasta.

Austfirðingar telja umferðarlagabrot þau afbrot sem þeir þurfi helst að hafa áhyggjur af, 42% segjast hafa mestar áhyggjur af umferðarlagabrotum sem er álíka hlutfall og víða á landsbyggðinni.

Austfirðingar hafa minnstar áhyggjur allra af eignaspjöllun, aðeins 2% nefndu þau, 1% þjófnað, 1% kynferðisbrot en 6% önnur afbrot sem var hvergi hærra.

33% Austfirðinga töldu ekkert brot vera vandamál, enginn svarenda úr fjórðungnum hafði áhyggjur af ofbeldi eða innbrotum.

Hvergi annars staðar mældust engar áhyggjur af innbrotum. 65,6% Austfirðinga sagðist aldrei á árinu 2016 hafa haft áhyggjur af innbroti á árinu 2016. Það hlutfall komst hvergi nærri því.

Spurt var hvort viðkomandi hefði orðið fyrir broti árið 2016. Á Austurlandi voru eignaspjöll tíðust, 7% höfðu orðið fyrir þeim. Athygli vekur að 4% sögðust hafa orðið fyrir kynferðisbroti, það hlutfall var hvergi hærra.

3% Austfirðinga höfðu lent í þjófnaði sem var lægsta hlutfallið á landinu og enginn aðspurðra hafði lent í ofbeldisbroti, sem er einstakt. Aðeins 15% Austfirðinga höfðu lent í einhvers konar broti sem var langlægsta hlutfallið.

5% svarenda af Austurlandi sögðust hafa orðið fyrir einhvers konar ofbeldi af hálfu maka, það hlutfall mældist aðeins lægra á Suðurlandi.

Enginn Austfirðinganna hafði orðið fyrir því að af honum væri deilt kynferðislegu myndefni án leyfis eða verið hótað því. Slík brot voru afar fátíð í könnuninni en Austurland var eini fjórðungurinn þar sem enginn hafði orðið fyrir því.

Könnunin var gerð af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands til að kanna reynslu Íslendinga af afbrotum og öryggistilfinningu. Á landsvísu svöruðu 2500 manns könnuninni, þar af voru innan við 100 af Austurlandi. Vikmörk innan svæðisins eru því há.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.