Ásókn í íbúðalóðir á Reyðarfirði

Fjórum íbúðalóðum á Reyðarfirði var úthlutað á síðasta fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar. Varaformaður nefndarinnar segir að afsláttur á gatnagerðargjöldum hafi skapað hvata til bygginga auk þess sem eftirspurn sé eftir húsnæði fyrir ungar fjölskyldur.

„Þetta er ánægjuleg tíðindi. Það er talsverð eftirspurn eftir einbýlishúsum, það sést á þessum lóðaúthlutunum og þá hefur einnig verið góð sala á eignum,“ segir Ragnar Sigurðsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og varaformaður nefndarinnar í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Þremur lóðum var úthlutað til fyrirtækis sem hyggst reisa einbýlishús og einni til einstaklings. Þá er einnig að hefjast bygging íbúðarhúss þar á óbyggðum grunni og nýverið var lokið við að endurbyggja hús á gamalli lóð.

Afsláttur á gjöldum skapar hvata

Aðspurður segist Ragnar telja að 75% afsláttur af gatnagerðargjöldum íbúðalóða í skipulögðum hverfum á árinu, sem bæjarstjórn samþykkti fyrir áramót, hafa skipt sköpum fyrir eftirspurnina. „Ég held að þessi afsláttur hafi sitt að segja í því að markaðurinn hefur tekið við sér, byggingarkostnaðurinn er hár og því mikilvægt að reyna að koma til móts við hann og skapa hvata.“

Hann segir eftirspurn til staðar og nóg af lóðum í flestöllum byggðakjörnum sveitarfélagsins en hár byggingarkostnaður hafi haldið aftur af áhugasömum. Hann segir áhugann sérstaklega vera meðal ungs fólks og rekur það til þess að börn komist eins árs gömul inn á leikskóla í Fjarðabyggð. „Við finnum fyrir eftirspurninni og áhuganum á því að flytja hingað, sérstaklega hjá ungum barnafjölskyldum. Eftirspurn eftir íbúðum, hvort sem er til nýbygginga, leigu eða kaupa er til staðar. Ég held að staðan í leikskólamálunum skipti þar máli.“

Óttast að nýjar reglur hækki kostnað

En þótt vel gangi núna eru blikur á lofti. Nefndin tók á síðasta fundi undir umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um breytingu á mannvirkjalögum. Þar er gerð aukin krafa um faggildingu þeirra sem yfirfara hönnunargögn og úttektir. Bæði er varað við að byggingafulltrúar víða um land hafi ekki þessa faggildingu auk þess sem hvatt er til þess að einfaldari byggingar verði undanþegnar. Ragnar óttast að reglurnar hækki byggingarkostnað, einkum á landsbyggðinni.

„Það hefur verið rætt um það í talsverðan tíma að reyna að draga úr byggingarkostnaði. Það skýtur því skökku við að til meðferðar í þinginu er þetta frumvarp. „Ég tel einsýnt að það muni hafa áhrif á byggingarkostnað, vonandi munu einbýlishús standa utan við þetta, en engu að síður mun þetta hafa letjandi áhrif á byggingamarkaðinn og eflaust hækka allan byggingarkostnað. Þetta gengur því þvert á öll yfirlýst markmið um að reyna að draga úr byggingarkostnaði.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.