Er Andrés Skúlason hættur?

Óvíst er hvort Andrés Skúlason, oddviti Djúpavogshrepps, gefur kost á sér á sér til áframhaldandi setu í sveitarstjórn. Andrés hefur farið fyrir sveitarstjórninni frá árinu 2002.

Nafn Andrésar er hvergi að finna á nýjum framboðslista Lifandi samfélags sem kynntur var í gær. Þar eru hins vegar nöfn náins samstarfsfólks svo sem Gauta Jóhannessonar, sveitarstjóra og Þorbjargar Sandholt og Kristjáns Ingimarssonar sem voru með Andrési á Framfaralistanum fyrir síðustu kosningar.

Samkvæmt heimildum Austurfréttar skýrði Andrés frá því á íbúafundi á laugardag að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér í sveitarstjórn á næsta kjörtímabili. Ekki náðist í Andrés við vinnslu fréttarinnar til að fá það staðfest.

Heimildir Austurfréttar herma ennfremur að nokkuð hafi verið þrýst á Andrés um að gefa kost á sér áfram. Framboðsfrestur er til 5. maí.

Andrés tók sæti í sveitarstjórn árið 2002 fyrir Nýlistann sem komst þá í meirihluta. Flokkurinn bauð aftur fram 2006 og 2010, í síðara skiptið sem eina framboðið. Árið 2014 leiddi Andrés Framfaralistann.

Á lista Lifandi samfélags er bæði að finna fulltrúa af Framfaralistanum og Óskalistanum sem buðu fram fyrir síðustu kosningar.

Auk Andrésar er miðað við nýja listann óvíst um framtíð Rán Freysdóttur, sem leiddi Óskalistann 2014 og Sóleyjar Daggar Birgisdóttur, sem samkvæmt upplýsingum Kosningasögu hefur setið hefur í sveitarstjórn frá 2010.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.