Orkumálinn 2024

Áhugi á ferð um Gullna hringinn og Austurland að vetri

Seyðfirski ferðaskipuleggjandinn One Stop Shop hefur hafið sölu á vetrarferðum þar sem bæði er farið um lykilstaði á Suðurlandi og Austurlandi. Stjórnandinn segir hugarfarsbreytingar þörf til að selja Austurlandi að vetri til.


„Auðvitað langar okkur að selja lengri ferðir en það virðist taka tíma á svæði sem er ekki nógu þekkt, eins og okkar. Fólk vill tikka í boxin,“ segir ferðaskipuleggjandinn Aðalheiður Borgþórsdóttir sem stendur að baki One Stop Shop.

Í samvinnu við fleiri austfirska ferðaþjónustuaðila hefur Aðalheiður þróað vetrarferð um Austurland sem ein stærsta ferðaskrifstofa landsins, Nordic Visitor, hefur tekið í sölu. Ferðin hefst á tveimur dögum í Reykjavík þar sem Gullni hringurinn er farinn áður en haldið er austur á land þar sem gist er í þrjár nætur áður en gestir halda aftur heim til sín.

Um er að ræða vetrarferð sem í boði verður frá október til desember og febrúar til lok apríl. Hún verður í boði nú í apríl en ekki er reiknað með að reynsla komist á hana fyrr en næsta vetur. Unnið er að því að kynna ferðina fyrir ferðaskrifstofum. „Það er áhugi á ferðinni. Hún þykir spennandi og það er spurt um hana,“ segir Aðalheiður.

Hún segist ekki óttast Fjarðarheiðina enda séu fjallagarparnir í East Highlanders meðal samstarfsaðila og þeir komist flest nema veðrið sé brjálað. Þá hafi innanlandsflug ekki fælt frá ferðinni. „Við settum bara verð á pakkann.“

Hún segir aðra ferðaþjónustuaðila í samstarfinu hafa tekið vel í hugmyndina þegar leitað var eftir samvinnu og vonast til að með þessu eflist enn frekar vetrarferðamennska á Austurlandi.

„Veturinn er mjög spennandi og febrúar er orðinn einn stærsti mánuðurinn í Reykjavík þótt við sjáum það ekki hér. Það þarf ákveðna hugarfarsbreytingu hjá þeim sem selja Austurland. Þótt Fjarðarheiðin sé erfið þá er ekki útilokað að vinna með það.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.