Orkumálinn 2024

Áhættusvæðin verða betur greind og girt af

„Ég ætla ekki að segja þér hvað við vorum lengi á leiðinni,“ segir Björn Einarsson, formaður Björgunarsveitarinnar Ársólar á Reyðarfirði, en lögreglan veitti sveitinni leyfi til forgangsaksturs eftir að útkall á háum forgangi barst vegna snjóflóðs af þaki Fjarðabyggðarhallarinnar á Reyðarfirði í gær.



Þrír félagar úr björgunarsveitum á Austurlandi voru að ljúka fjögurra daga snjófljóðaleitaræfingu í Oddskarði með leitarhundum Landsbjargar þegar útkallið barst og mættu þeir því á staðinn með þrjá leitarhunda, leitarstangir og skóflur.

„Vel gekk að leita í snjónum umhverfis húsið og klukkustund eftir að útkallið barst var björgunarsveitafólk búið að fínkemba svæðið og leita af sér allan grun,“ segir Björn.

Þrátt fyrir afar skjót viðbrögð björgunarsveitarinnar var fjölmenni farið að leita þegar þeir komu, en þegar flóðið féll stóð yfir leikur meistaraflokks Leiknis og Fram í höllinni.

„Ótrúlega margt fólk var komið út og farið að grafa bæði með höndum og skóflum, auk þess sem björgunarsveitarmeðlimir frá Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði,“ segir Björn, en fljótlega bættust einnig fimm leitarhundar við.

„Þetta fór eins vel og hægt var og í rauninni alveg magnað að fá akkúrat þetta útkall á þessum tíma, það mun aldrei gerast aftur að átta snjóflóðaleitarhundar náist saman í leit á sama svæðinu á þetta stuttum tíma.“

Björn segir að snjómagnið sem féll af þakinu hafi ekki verið mjög mikið, en snjórinn var blautur og því eins og steypa þegar hann féll til jarðar. Hann segir að björgunarsveitin sé búin að benda á þessa hættu og vonar að öryggismálin við höllina verði endurskoðuð í kjölfarið.

„Þetta er ekki það eina sem þarf að endurskoða, heldur lokar snjórinn einnig fyrir brunaútganga í höllinni sem er háalvarlegt mál.“

 

 


Allir út að moka

Tuttugu mínútna hlé var gert á leik Leiknis og Fram, en atvikið átti sér stað í stöðunni 4-3 fyrir Leikni þegar um tíu mínútur voru til leiksloka.

„Við sáum bara að allir áhorfendur hlupu út og húsvörðurinn í Fjarðabyggðarhöllini fór á bekkina og bað alla um að koma og hjálpa,“ sagði Björgvin Stefán Pétursson, fyrirliði Leiknis, í samtali vð Fótbolta.net.

„Það var akkúrat aukaspyrna hjá Fram þegar þetta gerðist. Þá komu varamenn og þjálfarar inn á og sögðu frá gangi mála og allir fóru út að moka í góðar 10-15 mínútur þangað til björgunarsveitin mættu með leitarhundana, þá tóku þeir yfir."

Leikmenn fengu svo fimm mínútur til að hita upp aftur og koma sér í stand og leikurinn hélt áfram.

„Sem betur fer var ekkert barn undir flóðinu sem féll af þakinu, þannig allt endaði vel fyrir utan leikinn,“ sagði Björgvin en Leiknismenn fengu á sig jöfnunarmark og lokatölur urðu því 4-4.


Forvarnir eru besta vörnin

„Það hefur verið skoðað áður að setja snjógildrur beint á húsið en á sínum tíma var það talið að þær myndu lítil áhrif hafa. Við munum láta endurskoða það núna í ljósi þessa atviks. Við munum væntanlega einnig merkja svæðið ennþá betur og hugsanlega girða áhættusvæðin af með einhverju hætti.

Forvarnir eru þó besta vörnin og það er alltaf markviss fræðsla í skólanum, bæði þegar ný börn koma í skólann sem og starfsmenn eru vakandi fyrir svæðinu og gæta þess á skólatíma. Í grunnskólanum var farið vel yfir þessi mál með börnunum í morgun.

Við ætlum þó að grípa til frekari aðgera núna og yfirfara allar áætlanir, einnig með tilliti til þess ef snjór teppir hugsanlega neyðarútganga ef hann fellur af þakinu.

Að lokum langar mig að koma á framfæri þökkum til allra sem komu að því að bregðast við þessum verkefni en það sýnir enn og aftur kraftinn og samheldnina í samfélaginu okkar þegar mikið liggur við,“ segir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Ljósmynd: Ásgerir Metúsalemsson. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.