Ætla ekki að bíða í 52 ár eftir sömu launum og strákarnir við hliðina á mér

Konur dagsins í dag eru þakklátar þeim sem ruddu brautina í áttina að jafnari stöðu kynjanna en gera sér grein fyrir að halda verður áfram. Launamunur kynjanna er nú um 14% og virðist vera að aukast á ný.


„Það er fokking fáránlegt að karlar fái hærri laun en við – bara af því að þeir eru karlar,“ sagði Rebekka Karlsdóttir, annar ræðumanna á samkomu í tilefni af kvennafrídeginum á Egilsstöðum.

Þar eins og víða um land hættu konur vinnu klukkan 14:38 í dag á þeirri mínútu þegar þær hætta að fá borgað fyrir störf sín miðað við laun karla.

„Það hefur mér lengi verið hugleikið hvers vegna samfélagið kemur öðruvísi fram við strákana við hliðina á mér heldur en mig - hvernig stendur á því að við metum fólk og ætlumst til mismunandi hluta vegna kynfæra þeirra.

Þetta er asnalegt – ég hef ekki allavega tekið eftir því að það sé bráðnauðsynlegt að vera með typpi til að vera fær yfirmaður eða gera við bíl eða að píka sé mikilvæg til þess að passa börn og hjúkra fólki - en samt segir samfélagið okkur að svona eigi þetta að vera og launin fylgja svo eftir kynfærunum,“ sagði Rebekka.

Fáránlegt að vera ekki metnar að verðleikum

Hún sagðist gera sér grein fyrir að hún tæki djúpt í árinni en það þyrftu stundum að gera. Viðtal sem hún las nýverið við konu sem sagði að útlit væri fyrir að konur þyrftu að bíða 52 ár í viðbót til að loka launabilinu miðað við hversu hægt það minnki hleypti í hana kappi.

„Það kemur ekki til mála að ég ætli að bíða í 52 ár eftir sömu launum og strákarnir við hliðina á mér. það er fáránlegt að árið sé 2016 að það skuli enn verið að mismuna fólki eftir kynjum - að mismunandi kynfæri og mismunandi hormón vegi hærra heldur en menntun, hæfni, reynsla og svo framvegis.

Það er fáránlegt að við séum ekki metnar að verðleikum okkar og þessu þarf að breyta strax. Konurnar á undan okkur börðust fyrir okkar réttindum og komu okkur þetta langt – nú er komið að okkur og samfélaginu öllu að klára þetta!“

Skylda okkar að halda áfram

Ruth Elfarsdóttir, fjármálastjóri Fjarðaáls, tók undir að þótt ýmislegt hefði áunnist væri mikilvægt að halda áfram. „Ég væri ekki framkvæmdastjóri hjá stóru fyrirtæki nema vegna kvennanna sem stóðu í baráttunni fyrr á tímum. Það er skylda okkar að halda áfram. Við erum fyrirmyndir fyrir börnin okkar, við megum ekki gleyma því.“

Hún rifjaði upp að ýmsar skýringar hefðu í gegnum tíðina verið gefnar fyrir launamuninum. „Fyrir 100 árum var því haldið fram að konurnar ynnu einfaldari störf, þyrftu minni klæðnað og borðuðu minna.“

kvennafridagur 2016 0025 web

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.