Aðgengismál hreyfihamlaðra: Viðhorfsbreyting orðið frá síðustu ferð

Viðhorfsbreyting hefur orðið í aðgengismálum á Íslandi undanfarin misseri en enn vantar töluvert upp á. Fyrst og fremst vantar fjármagn til að gengið sé í að bæta úr. Aukinn ferðamannastraumur setur þrýsting á úrbætur.


Þetta er mat Brands Bjarnasonar Karlssonar, þróunarstjóra hjá Frumbjörg, frumkvöðlamiðstöð Sjálfsbjargar. Brandur fór fyrr í mánuðinum hring um landið til að kynna sér aðgengismál en hann er sjálfur bundinn við hjólastól.

Tvö ár eru síðan Brandur fór slíka ferð. „Tilgangurinn hefur verið að vekja athygli á skorti á aðgengi á Íslandi og reyna að fá málin ofar í forgangsröðum ríkis og sveitarfélaga.

Frá því við fórum um síðast hefur orðið ákveðin viðhorfsbreyting. Þótt hlutirnir hafi ekki batnað eins og maður hefði viljað er fólk meðvitaðra um þörfina til að gera þetta. Nú skortir helst fjármagn og regluverk fremur en fólk gerir sér ekki grein fyrir stöðunni,“ segir hann.

Brandur kom meðal annars við á Seyðisfirði og Egilsstöðum í ferðinni. „Við heyrðum í fólki sem var ekki ánægt með aðgengið á Seyðisfirði. Það eru nokkur stig í þessu, eitt er að komast inn en það er annað ef allur aðbúnaður er ekki til staðar.“

Sérstök áhersla hefur verið á opinberar byggingar. „Við teljum hægt að gera kröfur til ríkisins að vera til fyrirmyndar, aðrir fylgja fordæmi þess. Það er ekki gott þegar fólk þarf að sækja opinbera þjónustu milli sveitarfélaga því aðgengið er ekki í lagi.“

Aukinn ferðamannastraumur er eitt af því sem orðið hefur til þess að setja þrýsting á bætt aðgengi. Brandur nefnir dæmi frá Akureyri þangað sem mikið af eldra fólki komi með skemmtiferðaskipum. „Það verður til þess að kaffihúsin og fleiri bæta við römpum.“

Hann telur að margir hreyfihamlaðir ferðamenn verði fyrir áfalli við komuna til landsins, velji þeir á annað borð að koma vegna aðgengismála. „Ég hugsa að þeir upplifi það, miðað við Evrópu og Ameríku. Klósettin við Hringveginn eru til dæmis ekki innan þeirra staðla sem fyrirfinnast þar.“

Brandur við Möðrudal á Fjöllum. Mynd: Úr einkasafni

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.