Orkumálinn 2024

Að loknu sjómannaverkfalli: Farnir til hafs á ný – en ekki syngjandi, sælir eða glaðir

Segja má að austfirsku fiskiskipin hafi látið úr höfn nánast um leið og ljóst var að sjómenn hefðu samþykkt nýjan kjarasamning. Afar skiptar skoðanir eru hins vegar um samningana meðal sjómanna. Afleðingar verkfallsins munu koma í ljós á næstu mánuðum.


Sólarhringur er liðinn síðan sjómenn samþykktu nýjan kjarasamning með 52% gegn 46%. Skrifað var undir samning aðfaranótt laugardags og strax í kjölfarið héldu fulltrúar úr samninganefnd sjómanna af stað til að kynna samninginn fyrir félagsmönnum. Ekki voru gefnar upp niðurstöður eftir einstökum sjómannafélögum.

Eins og niðurstöður atkvæðagreiðslunnar bera með sér voru viðbrögðin blendin og á sumum kynningarfundunum voru skoðanaskiptin afar hreinskiptin.

Mat samningamannanna var að ekki hefði lengra verið komist, að minnsta kosti ekki án þess að bera stöðuna undir baklandið. Þeir virðast álíta að þeim hafi verið stillt upp við vegg af sjávarútvegsráðherra sem boðaði að lög yrði lögð fyrir Alþingi í dag ef ekki semdist um helgina.

Sprunga en ekki gat

Sjómenn hafa verið kjarasamningslausir frá árinu 2011 og virðist mörgum þeirra gremjast hversu lítið hefur áunnist þrátt fyrir harða baráttu síðustu mánuði en verkfallið hefur staðið frá 14. desember eftir að sjómenn felldu kjarasamning.

Kjör sjómanna eru frábrugðin flestum launþegum á þann hátt að þeir fá hlut í verðmæti aflans, þannig að þegar vel árar eru kjörin góð. Þess vegna hefur lítill hvati verið fyrir aðgerðum síðustu ár en kreppt hefur að með sterkara gengi krónunnar.

Því sjómenn fá hlut í aflaverðmætinu taka þeir á móti þátti í ýmsum kostnaði við útgerðina. Olíugjaldið og nýsmíðaálagið eru þau atriði sem helst orðið hafa til þess að samningaviðræðurnar hafa setið pikkfastar undanfarnar vikur en útgerðarmenn hafa neitað að gefa eftir. Lítilsháttar lækkun varð á hlutdeild sjómanna í olíugjaldi í samningum helgarinnar en í múrnum sem þeir ætluðu sér að gera gat á er aðeins sprunga.

Lítill ávinningur eftir miklar fórnir?

Mörgum sjómönnum þykir því sem lítið hafi áunnist þrátt fyrir mikla baráttu og einstaka samstöðu að baki samninganefndinni. Uppbætur á fæðispeningum og fleiri atriðum var ekki það sem baráttan gekk út á. Fæðið, olían og fleiri atriði mynda kostnaðarhlutdeildina sem er saman einn stór liður þegar hluturinn er að lokum reiknaður.

Óhætt er hins vegar að segja að tilætlun samningsaðila um að fá skattaafslátt af fæðispeningum hafi mætt lítill samúð annars staðar í samfélaginu. Þar verða aðrir skattborgarar ráðherra þakklátir fyrir að hafa spyrnt við fótum.

Sjómenn hafa einnig gagnrýnt hversu skorið hafi verið niður í fjölda í áhöfnum, svo nærri liggi að það ógni öryggi. Ef einn veikist um borð liggi við að sigla þurfi til hafnar. Eins veldur þetta því að skipstjórar vilja aðeins reyndari menn þannig að nýliðar komast síður að. Í bókun með samningnum er kveðið á um að mönnun verði skoðuð.

Í síðustu viku fannst loks loðna og kvóti íslensku skipanna var margfaldaður, en segja má að hann hafi verið nær enginn. Loðnan er verðmætur fiskur og ýtti það enn frekar á lausn deilunnar að bjarga þyrfti verðtíðinni.

Hvað gerist þegar rykið sest?

Ljóst er að verkfallið hefur bitið víða en harðast kemur það sennilega við minni sveitarfélög og fyrirtæki sem treysta á sjávarútveginn. Í viðtali við Austurgluggann í þar síðustu viku lýsti sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps að verkfallið lamaði allt á staðnum. Hafnarsjóður hefði trúlega orðið af tekjum upp á 50 milljónir króna til viðbótar við annað tekjutap út af minna útsvari.

Sumt fiskverkafólk hefur verið á atvinnuleysisbótum, að því gefnu að slík réttindi væru til staðar. Margar vélsmiðjur og þjónustufyrirtæki hafa verið orðnar verkefnalitlar. Dæmi eru um fyrirtæki sem ekki hafa gefið út reikninga síðan 5. janúar. Þegar eldurinn hefur verið slökktur standa brunarústirnar eftir.

Hætt er við að hærri laun gangi nærri einhverjum minni útgerðum. Enn frekari samþjöppun gæti orðið á kvótaeign.

Hráefni flutt inn

Minni fiskvinnslur hafa ekki fengið hráefni og byggja þarf upp traust á mörkuðum á ný. Í síðustu viku spurðist til flutningabíls, fullum af fiski, sem kom til Seyðisfjarðar með Norrænu og keyrði sem leið lá norður í land.

Forsvarsmenn útgerðarmanna hafa lýst yfir ánægju með samninginn. Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, sagði í samtali við Mbl.is í gærkvöldi að byggja þyrfti upp traust milli útgerðarmanna og sjómanna á ný, það verk stæði einkum upp á útgerðarmennina.

Ekki er þó hægt að segja það hafi byrjað vel þegar sjómenn voru boðaðir til skips áður en úrslit atkvæðagreiðslunnar voru ljós.

Loðnan úti fyrir Hornafirði

Þau urðu hins vegar jákvæð og voru Börkur og Beitir fyrstu austfirsku skipin til að láta úr höfn klukkan tíu í gærkvöldi. Bjarni Ólafsson, Gullver og Barði eftir miðnættið. Blængur hefur verið í slipp á Akureyri og fór þaðan um kvöldmat. Gert er ráð fyrir að vinnsla hefjist á Seyðisfirð og Norðfirði um miðja vikuna.

Venus NS lét úr höfn rúmlega tíu í gærkvöldi en skipið var bundið við bryggju í Reykjavík á meðan verkfallinu stóð. Aðalsteinn Jónsson fór frá Eskifirði upp úr miðnætti en Jón Kjartansson er enn við bryggju.

Hoffellið fór frá Fáskrúðsfirði um miðnættið og Sandfellið eftir miðjan dag í dag. Loðnuskipin eru að veiðum nær öll á sama blettinum skammt úti fyrir Hornafirði.

Frá fundi sjómannadeildar AFLs á Reyðarfirði í gær. Mynd: GG

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.