Á fimmta þúsund áætlunarferða á tuttugu árum

Á mánudag, 2. maí, voru tuttugu ár liðin síðan Jakob Sigurðsson og Margrét Hjarðar í Njarðvík hófu að keyra áætlunarbíl milli Borgfjarðar og Egilsstaða. Síðan eru ferðirnar orðnar á fimmta þúsund og farþegar á tíunda þúsundið.


„Flugfélag Austurlands var að hætta með áætlunar flug til Borgarfjarðar. Sá sem var með póstafgreiðsluna á Borgarfirði hafði samband og spurði mig hvort ég væri til í að taka þá póstflutningana að mér. Síðan þróaðist það yfir í farþega og ýmislegt fleira fyrir Borgfirðinga.“

Hann heldur bókhald utan um ferðirnar. Þær eru orðnar 4.667 og farþegarnir 9.158. Borgfirðingurinn Hjálmar Geirsson var fyrsti farþeginn. Farið er daglega til Egilsstaða klukkan átta að morgni og til baka um hádegið.

Jakob tekur að sér ýmis viðvik fyrir Borgfirðinga. „Ég er með bók sem ég skrifa í ef það vantar eitthvað frá dýralækninum, apótekinu eða Húsasmiðjunni.“

Hann segir flutningana fyrst og fremst byggjast upp á pósti og vörum. Farþegaflóran sé fjölbreytt en Borgfirðingar séu duglegir að nýta ferðirnar. „Þeir geta farið með okkur til læknis eða gert annað það sem þeir þurfa að gera á Egilsstöðum og notað morguninn.“

Jakob hefur viðað að sér punktum um sögu póstflutninga á Borgarfjörð sem virðast hafa hafist árið 1898. Séra Vigfús á Hjaltastað var póstur á Borgarfirði og fékk tíu krónur fyrir ferðina. Þegar landpóstunum var sagt upp þegar kreppti af eftir fyrri heimsstyrjöldina var gjaldið komið upp undir 50 krónur. Þeir voru ráðnir aftur á 30 krónur á ferð.

Um 1940 var byrjað að keyra með póst til Borgarfjarðar á sumrin. Um áratug fyrr höfðu strandferðir batnað og dró þá úr póstflutningum yfir fjöll.

Auðvelt er að ímynda sér að það hafi verið krefjandi – á annan hátt í dag. „Þegar við byrjuðum að keyra var Vatnsskarðið ekkert opnað alla daga og við þurftum að brjótast yfir það á jeppanum. Það tók stundum tíma en það var ótrúlega sjaldan sem við komumst ekki yfir.“

Jakob segir Borgfirðingum hafa litist misvel á að færa póstflutningana aftur upp á land en fljótlega hafi komið í ljós að betur gekk að keyra en fljúga.

Frá Njarðvík hafa verið póstferðir frá 1925 að undanskyldum flugárunum. Þó kom fyrir að faðir Jakobs væri fengin til að fara eina og eina ferð ef flugfélagið komst ekki.

Fyrr í vor endurnýjaði Jakob bílinn og er kominn á nýjan Mercedes Benz Sprinter. „Sá gamli var orðinn mikið keyrður og þá var bara tvennt í stöðunni: að hætta þessu eða endurnýja bílinn. Endurnýjunin varð ofan á. Svo kemur í ljós hvað maður verður lengi. Kannski er maður búinn að vera alltof lengi en þetta verður einhver ár í viðbót.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.