Ragnheiður Elín: Álverið er happadrættisvinningur Austfirðinga

ragnheidur elin arnadottir webRagnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir það eins og stóran happdrættisvinning fyrir Austfirðinga að álver Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði hafi komist á laggirnar. Það hafi samt eins og fleiri verkefni byrjað sem hugmynd.

„Það má vel líkja því við stóran happadrættisvinning á svæði sem þessu að fá nálægt 1.000 ný störf inn í samfélagið auk allra óbeinu starfanna sem skapast við að þjónusta þessar tæpu 1.000 fjölskyldur sem eiga lífsviðurværi sitt undir álverinu komið," sagði Ragnheiður Elín í setningarræðu sinni á atvinnumálaráðstefnunni Auðlindin Austurland í fyrradag.

Hún sagði „farsæla nýtingu" náttúruauðlinda hafa verið grunnstoð atvinnuuppbyggingar á Austurlandi. Á Austurlandi séu áfram óteljandi verkefni.

„Allt sem til þarf er fólk með hugmyndir – og fólk sem kann að láta hugmyndirnar verða að veruleika.

Álverið var einu sinni hugmynd og þess vegna skiptir öllu máli að fólk hafi þekkingu til að geta komið hugmyndum í framkvæmd. Því sumar hugmyndir eru einfaldlega stórkostlegar!"

Ragnheiður nefndi hugbúnaðarfyrirtækið Rational Network sem eina af þeim hugmyndum sem hefðu gengið upp á Austurlandi en hún heimsótti fyrirtækið fyrir skemmstu.

„Seint hefði mér fyrir þá heimsókn dottið í hug að ljósastaurum í Þýskalandi eða Bandaríkjunum væri hægt að stjórna af gömlum kaupfélagsskrifstofum á Egilsstöðum."

Næstu tækifæri í ferðaþjónustunni

Ragnheiður sagðist telja næstu tækifæri Austfirðinga felast í ferðaþjónustu, skapandi greinum og þekkingar- og úrvinnslustörfum. Fyrir ferðamennsku eigi Vatnajökulsþjóðgarður eftir að verða „veigamikill segull."

Í ráðuneytinu hefur verið að hugmyndum um náttúrupassa sem væri aðgangskort að völdum íslenskum náttúruperlum. Hugmyndin að baki honum sé að dreifa álaginu af ferðamönnum og nýta ágóðann bæði til viðhalds og uppbyggingar nýrra ferðamannastaða.

Ragnheiður sagði „sérstaklega áhugavert og gleðilegt" að sjá hversu mikla áherslu austfirsk sveitarfélög hefðu lagt á að styðja við atvinnuþróun sem tengist listum og skapandi greinum. Hún nefndi vöruhönnunarverkefnið Make by Þorpið, listahátíðina LungA og fleiri verkefni.

Loks ræddi Ragnheiður Elín um nýja nýsköpunar- og atvinnustefnu sem eigi að verða tilbúin í byrjun árs 2014 og verði lögð fram á Alþingi í vor.

Stefnan á að endurspegla áherslur í stuðningi stjórnvalda við nýsköpun, tækniþróun og framtaksfjármögnun, einföldunar stoðkerfisins og uppbyggingu klasa- og þekkingarsetra um allt land, svo dæmi séu nefnd.

„Þessar áherslur atvinnustefnunnar munu vonandi ríma vel við þá atvinnuuppbyggingu sem á sér stað á Austurlandi og er fyrirhuguð á komandi árum."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.