„Það vantar peysu“: Aðalmeðferð í morðmáli frestað og saksóknari óskar eftir frekari gögnum

mordmal adalmedferd egs webSaksóknari í máli ákæruvaldsins gegn Friðriki Brynjari Friðrikssyni óskaði eftir að gerði yrði nánari DNA rannsókn á blóðblettum sem fundust í buxum í eigu Friðriks Brynjars. Hinn ákærði lýsti yfir sakleysi sínu við upphaf aðalmeðferðar í gær en hann er ákærður fyrir að hafa banað Karli Jónssyni í íbúð hans á Egilsstöðum í byrjun maí. Sönnunargögn tæknideildar lögreglu af vettvangi grafa undan ýmsum fullyrðingum í framburði hans. Enn virðist þó skorta á tengingar á milli hans og lykilsönnunargagna í málinu.

Aðalmeðferðinni var frestað á níunda tímanum í gærkvöldi og hafði þá dregist nokkuð á langinn en Jónas Wilhelmsson, yfirlögregluþjónn á Eskifirði, beið til dæmis í þrjár klukkustundir eftir því að bera vitni. Snemma dags var þó orðið ljóst að allar tímaáætlanir voru farnar út í veður og vind og eftir framburð þýska réttarmeinafræðingsins, sem krufði Karl, var ljóst að ekki tækist að ljúka aðalmeðferðinni að þessu sinni en skýrsla hans, sem gefin var í gegnum síma frá Þýskalandi á ensku, reyndist ónothæf.

Það var Friðrik Brynjar sem fyrstur gaf skýrslu fyrir dóminum. Hann gekk inn í dómssalinn íklæddur þykkri, svartri Cintamani-úlpu með hettu sem hann notaði til að hylja andlit sitt. Hann fór úr úlpunni áður en hann gaf skýrslu sína. Hann var íklæddur hvítum bol og víðum gallabuxum. Hann hallaði sér fram á borðið og talaði lágum rómi í þá tvo tíma sem skýrslutakan stóð.

Hann sagðist hafa búið í um mánuð í blokkinni í Blómvangi fyrir atburðinn og aðeins nýkominn með búslóðina austur. Hann þekkti Karl lítið, hafði hitt hann fyrir viku þegar hann var að merkja póstkassann og Karl þá lánað honum lítinn hníf sem hann gat þó lítið notað.

Friðrik Brynjar segðist hafa byrjað að drekka áfengi mánudaginn 6. maí um kvöldmatarleytið. Eftir kvöldmat hafi hann farið til vinar síns og þeir setið saman þar til hundurinn vinarins beit hann. Friðrik leitaði því á heilsugæslustöðina þar sem sárið var saumað og kom heim um ellefuleytið.

Þá hafi allur bjórinn verið búinn heima hjá honum og hann því farið út með hundinn sinn og kannað hvort nágrannar hans ættu meira. Karl hafi við það opnað útidyrahurðina, spurt hann hvort hann langaði í bjór, sagst eiga og boðið honum inn til sín.

Segist hafa reiðst eftir ógeðfellt tal um börn

Ákærði bar að þeir hafi setið góða stund, spjallað saman og Friðrik meðal annars sagst „mikill barnakall.“ Karl hafi þá sagt honum að „passa sig á því í svona litlu samfélagi.“ Þegar Friðrik hafi spurt hvað hann meinti með því hafi Karl farið að tala um sakleysi barna og unglinga og hversu lyktin af þeim væri góð. Þetta tal fannst Friðriki „ógeðfellt“ svo hann stóð upp og fór á klósettið.

„Þegar ég kem til baka stendur hann nánast við dyrnar og er orðinn allt öðruvísi en áður. Sagðist hlakka til að taka bleyjuna af barninu mínu og leika við það. Ég slæ hann og hann dettur niður í hægindastól.“ Friðrik kvaðst hafa slegið Karl nokkrum sinnum í andlitið „flötum lófa“

Að svo búnu segist Friðrik hafa rokið á dyr, tekið hundinn með sér og rölt hring í garði fyrir utan. Þegar hann hafi komið til baka hafi hann munað eftir opnum bjór sem hann átti hjá Karli og ákveðið að sækja hann.

„Ég labba inn og þá var aðkoman allt öðruvísi en ég skyldi við hana. Ég man eftir að hafa reynt að hafa náð einhverju samband við manninn. Hann var með blóð framan í sér...ég man ég hélt undir hendurnar á honum.“

„Hann vildi fá að tjá sig“

Í vitnisburði Friðriks kom fram að minni hans um atburði aðfaranætur 7. maí er stopult. „Ég er ekki viss um hvort ég muni eftir að hafa tekið hann úr sófanum og dregið hann út eða hvort það kom til mín lögregla hér á Egilsstöðum og segir við mig að ég hafi drepið manninn í stólnum og dregið hann fram. Þeir séu með öll sönnunargögn og ég eigi bara eftir að játa.“

Þessi lögregluþjónn á að hafa verið Jónas Wilhelmsson sem hafði eftirlit með honum eftir handtökuna. Friðrik Brynjar segist hafa borið kennsl á Jónas í sjónvarpinu nokkru eftir atburðina. Jónas mótmælti þessari frásögn sakborningsins þegar hann kom fyrir réttinn um kvöldið.

Jónas segist ekki hafa farið á vettvang fyrr en þann 8. maí og ekki fengið lýsingar þaðan fyrr en á stöðufundi sem haldinn var um kvöldmatarleytið þann 7. maí. Þær fullyrðingar voru studdar með framburði annarra lögreglumanna sem báru einnig að Jónas hefði ekki yfirheyrt hinn grunaða.

Jónas kannaðist hins vegar við að hafa rætt hann fyrr um daginn til að kanna líðan hans en ekki að hafa rætt við hann um vettvanginn. „Hann vildi fá að tjá sig og ég benti honum á að við værum bara tveir, verjandinn hans væri hvergi nálægt.“

Friðrik hafi samt tjáð sig um að hann hefði verið að drekka áfengi kvöldið áður en farið af stað þegar það var búið og bankað á íbúðir því hann vildi meira. „Maðurinn“ hafi þá komið út og boðið honum inn til drykkju. Þeir hafi talað saman og maðurinn þá farið að segja honum frá „ljótum barnamálum“ og farið að tala um barnið hans Friðriks. Hann hafi orðið „mjög vondur, fengið mikið skapvonskukast og rokið út en snúið aftur til að sækja bjórinn sem hann skyldi eftir. Hann hafi þá komið að manninum með blóðið framan í sér sitjandi í sófa.“

Lögreglan leitaði ítarlega að einhverju sem stutt gæti við frásögn Friðriks um „óþverratal“ Karls en fann ekkert. Talað bæði við hans nánustu og eins lögreglumenn en enginn kannaðist við hafa heyrt svo mikið sem orð um annarlegan hans áhuga á börnum. Bæði í íbúð Karls og Galtarstöðum fram, þar sem hann var uppalinn og hélt gjarnan til voru gerðar svokallaðar „lúsarleitir“.

„Ég fór í gegnum hvert blað, hvern hlut en það kom ekkert fram sem skýrði þetta. Það er ekkert sem ég hef fundið en ákærði hefur lýst þessu atriði eins allan tímann,“ sagði rannsóknarlögreglumaður.

Skíthræddur og kannaðist ekki við að hafa hringt í Neyðarlínuna

Fyrir dómi í gær bar Friðrik að hann hefði komið að Karli hálfum á svölunum og á grúfu. „Ég sá blóðið, varð skíthræddur, hljóp niður í kjallara og hringdi á lögregluna. Ég fór ekkert aftur inn í íbúðina.“

Saksóknari las upp úr símtalinu í neyðarlínuna þar sem Friðrik segir: „Ég held ég hafi drepið mann. Hann réðist á mig og ég kýldi hann eitt hnefahögg í andlitið. Hann datt niður og ég dró hann með mér út á svalirnar.“

Tveir lögreglumenn frá Egilsstöðum komu á vettvang skömmu síðar, eða um klukkan eitt um nóttina. Þeir fengu tilkynningu um átök í íbúð 304, sem var íbúð Friðriks og kærustu hans, Mögulega hefði manni verið kastað fram af svölum og væri meðvitundarlaus. Hugsanlega væri um morð að ræða.

Á vettvangi hafi þeir rætt við Friðrik Brynjar og kærustu hans. Friðrik hafi verið nokkuð æstur og meðal annars þurft að snúa hann niður. Hann hafi verið töluvert ölvaður og erfitt að skilja samhengið í því sem hann sagði. Engin merki hafi samt verið um átök í íbúðinni og þau vart hafa átt sér stað því ungabarn sem þar svaf hafi vaknað við komu lögreglumannanna. Kærastan hafi rekið Friðrik í rúmið og lögreglumennirnir tryggt að hann hlýddi því.

Á þessum tímapunkti vildi Friðrik ekki kannast við að það hefði verið hann sem hringdi í neyðarlínuna. Lögreglan gekk hins vegar úr skugga um að hann var með símtækið sem hringt var úr á sér. „Við vorum búnir að leita af okkur grun hvað varðaði útkallið og miðað við aðstæður þótti okkur engin ástæða til að rífast um það við drukkinn mann hvort hann hefði hringt.“

„Ég var skíthræddur ... ég átti í útistöðum við manninn... ég var viss um að hann væri látinn. Ég var drukkinn, í sjokki. Vissi ekkert hvernig ég átti að snúa mér í svona máli. Ég veit ekki við hvað ég var hræddur en þetta voru aðstæður sem ég réði ekki við. Þetta eru aðstæður sem ekki er hægt að lýsa nema vera í,“ sagði hann.

Lögreglumennirnir sögðu tilkynninguna sem þeir fengu hafa verið „óljósa.“ Þeir hafi ásamt sjúkraflutningamönnum, sem kallaðir voru út, gengið nokkra hringi í kringum blokkina og lýst umhverfis hana með vasaljósum og einnig beint kösturum lögreglubifreiðarinnar upp á svalir hússins en einblínt á íbúð 304.

Það var nágranni Karls sem fann hann morguninn eftir og gerði lögreglunni þá viðvart. „Ég fer út með rusl og sé þá mann liggjandi á svölunum.“

Blóð úr Karli í buxum Friðriks Brynjars

Útkallið barst klukkan 8:32. Sömu lögreglumenn mættu á vettvang og sinnt höfðu útkallinu um nóttina. „Fyrst kom SMS sem ég hélt að væru leifar frá nóttinni. Ég hringi samt í fjarskiptamiðstöð lögreglunnar og þá er þetta að koma í ljós,“ sagði sá sem þá var tekinn við dagvaktinni. „Þegar við komum inn í íbúðina blasir við að eitthvað alvarlegt hefur gerst og vettvangurinn var frystur fyrir tæknideildina,“ sagði félagi hans.

Friðrik var handtekinn klukkan 8:45. Lögreglumennirnir töldu það rétt miðað við útkallið um nóttina. Honum var kunngjört að hann væri handtekinn vegna aðildar að „stórfelldri líkamsárás“. Friðrik var sofandi þegar lögregluna bar að garði en kærasta hans hleypti þeim inn. Lögreglumennirnir sögðu að hegðun hans hefði verið allt önnur en um nóttina, hann rólegur, samvinnuþýður, kurteis og spurt lítils.

Sakarflytjendur spurðu lögregluþjónana út í klæðnað Friðriks Brynjars bæði um kvöldið og morguninn þegar hann var færður á stöðina. Þar var minni þeirra óljóst. Taldi annar þeirra að hann hefði verið í ljósum joggingbuxum um morguninn en engar heimildir eru um þær í skjölum málsins.

Þeir veittu þó báðir brúnum buxum hans athygli um nóttina og þekktu þær aftur þar sem þær lágu í hrúgu á eldhúsgólfinu um morguninn. Leifar úr blóði hins látna fundust á innanverðri buxnaskálm og aftan á en úr ákærða að framan. Sérfræðingur lögreglunnar sagði óljóst hvort um væri að ræða kám eða smit eða hvort blóðið hefði fallið beint á. Í íbúð Friðriks Brynjars fundust einnig sokkar með blóðleifum úr hinum látna. Blóðið virtist hafa dropið ofan á sokkinn en smitast neðan í hann.

Ofar í buxunum voru einnig minni blóðblettir. Sýni úr þeim voru ekki send með í DNA greininguna. Áður en þinghaldi lauk í gær fór saksóknari fram á að slík greining fari fram á þeim. Áætlað er að niðurstöður úr henni fáist á þremur vikum.

Þegar komið var að Karli lá hann mestallur úti á svölunum en fætur hans náðu inn fyrir þröskuldinn. Hann var íklæddur íþróttabuxum en fyrir dóminum fullyrti Friðrik Brynjar að hann hefði verið í gallabuxum. „Ég man það greinilega, hann var alltaf með höndina í rassvasanum.“ Lögreglumenn segja vel hafa verið gengið um hjá Karli og engar gallabuxur fundist í hrúgu eða á vettvangi sem rennt gætu stoð undir fullyrðingu Friðriks Brynjars.

Gerandinn gekk berserksgang á svölunum

Frá sófanum út að svölunum lá þunn blóðslóð sem varð greinilegri eftir því sem utar dró. Á svölunum var blóðpollur og lágar blóðslettur út um þær allar. Við meðferðina kom fram að alls hefðu fundist „að minnsta kosti“ 92 stungur á líkama Karls, þar af 80-86 í andliti.

Blóðferlafræðingar frá greiningadeild rannsóknarlögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem skoðuðu vettvanginn og komu fyrir dóminn í gær, sögðu ummerki á svölunum benda til þess að Karli hefði veittur stærstur hluti áverkanna þar. „Gerandinn hefur gengið berserksgang á svölunum,“ sagði annar þeirra.

Talið er að Karli hafi verið banað með tveimur snöggum stungum í hjartastað í sófanum eða nálægt honum. Ekki voru merki um átök í íbúðinni en óslitin blóðslóðin af svölunum bendir til þess að sá látni hafi verið dreginn þangað nær lífvana. Það hafi gerst strax. Sá sem dró hinn látna út virðist hafa þurft að stoppa aðeins við svalahurðina áður en haldið var áfram út á svalirnar.

Blóðferlafræðingarnir töldu „nær ómögulegt“ að Karl hefði legið á þröskuldinum mínútum saman eins og ákærði hélt fram. Um það hefðu sést ummerki. „Það er ekkert sem bendir til þess að hann hafi verið dreginn fram og aftur á svölunum.“ Þeir sögðu merkingar sakborningsins inn á teikningu af íbúðinni frammi fyrir dóminum „ekki ganga upp.“

Ummerkin hefðu einnig verið greinileg ef hann hefði legið í sófanum um hríð eftir að hafa verið stunginn. Lögreglumennirnir viðurkenndi að það „truflaði þá dálítið“ að ekkert blóð skyldi finnast við sófann. Það segði samt ekki alla söguna. Það færi algjörlega eftir beitingu hnífsins við stunguna hvort blæddi eða ekki, sérstaklega hafi sá látni verið sitjandi. „Þetta snýst allt um hvernig þú berð þig að. Það ekkert sjálfgefið að menn fái á sig blóð.“

„Okkur vantar peysu“

Það sem truflaði þá þó mest var að ekkert blóð skyldi finnast í yfirhöfnum Friðriks Brynjars. Fyrir dóminum í gær benti hann á tvær ljósar yfirhafnir sem hann kynni að hafa verið í hið örlagaríka kvöld og eru meðal gagna málsins. Engin ummerki um blóð hafa enn fundist í yfirhöfnum í eigu Friðriks Brynjars.

„Ég er hissa ef þetta eru fötin sem hann var í að ekki skuli vera í þeim blóð,“ sagði annar blóðferlafræðinganna. „Það er líklegt að gerandi hafi verið orðinn mjög blóðugur á höndum miðað við fjölda atlagna. Miðað við atganginn úti á svölunum er líklegt að hann hafi fengið á sig blóð á buxur eða annan fatnað [...] það er augljóst af blóði í sokkum og buxum að sakborningurinn var á staðnum.“

„Okkur vantar peysu“ voru orð þriðja sérfræðings lögreglunnar. Sá tók fram að auðvelt væri að þvo af blóð sem ekki nær af þorna. Hafi gerandinn verið með uppbrettar ermar gæti hann hafa náð því af án þess að nokkur ummerki sæjust. „Það er mjög ólíklegt að ekki hafi komið blóð á höndina sem hélt á morðvopninu.“

Í blóðferlinum fundust þófaför eftir ferfætling, að líkindum hund. Tekið var stroksýni úr loppum hunds Friðriks Brynjars en þar fannst ekkert blóð. Ljóst er samt að dýrið hefur þurft að koma fljótlega inn því blóðferillinn mun hafa þornað á nokkrum mínútum.

Framburður frá Þýskalandi týndist í hafi

Þýski réttarmeinafræðingurinn sem krufði Karl og gaf skýrslu í gegnum síma frá heimalandi sínu á ensku, tók ekki alls kostar undir framburð íslensku sérfræðinganna. Hann sagði líklegast að öll sárin hefðu verið veitt inni í sófanum og hinn látni hefði vel getað legið þar í hálftíma á bakinu án þess að skilja eftir sig blóðmerki.

Skýrslugjöfin gekk illa þar sem misskilningur virtist ríkja á milli þeirra sem voru í dómssalnum á Egilsstöðum og Þjóðverjans. Einn dómaranna notaði hugtakið „lost in translation“ (tapað í þýðingu) um skýrslugjöfina. Verjandi fórnaði höndum á köflum en lögreglumenn, sem sátu á meðal áhorfenda, hristu hausinn.

Framburður réttarmeinafræðingsins virtist að auki vera kominn í hrópandi ósamræmi við skriflega skýrslu hans sem lá fyrir dóminum. Gert var hlé á skýrslutökunni á meðan dómarar og sakarflytjendur réðu ráðum sínum. Ákveðið var að fresta skýrslugjöf hans og kalla hann fyrir dóminn í eigin persónu, þá með löggiltan dómtúlk á þýsku.

Áður en samtalinu var slitið hafði réttarmeinafræðingurinn þó lýst því að Karl hefði verið með 3-4 varnarsár á handarbökum sem bendi til þess að hann hafi reynt að verja sig, að líkindum andlit sitt.

Hvaðan kemur hnífurinn?

Við leit í íbúð Karls fannst hnífur í sturtubotni. Brotið var framan af hnífnum og einnig úr skafti hans. Plastbrot úr því fannst inni í íbúðinni. Ekkert blóð fannst á skaftinu en DNA úr tveimur einstaklingum. Annar þeirra var Karl en ekki var unnt að greina hitt DNA-ið, Ekki voru tekin fingraför en ein greiningaraðferðin útilokaði hina. Leitað var að hnífasettum sem morðvopnið gæti passað inn í en ekkert fannst. „Það var engin samstaða með hnífum í íbúð hins grunaða eða þess látna,“ sagði rannsóknarlögreglumaður.

Við krufningu fundust tvö misstór brot úr hnífnum í höfði hins látna. „Hann hættir ekki þótt hnífurinn brotni. Það endurspeglar haminn,“ sagði einn sérfræðinga lögreglunnar.

„Ég er saklaus“

Að loknum skýrslutökum yfir lögregluþjónum og sérfræðingum lögreglunnar virtist fátt styðja framburð Friðriks Brynjars. Í skýrslutökunni um morguninn, sem tók um tvo tíma, hélt hann statt og stöðugt fram sakleysi sínu.

„Ég er búinn að vera andvaka yfir þessu máli í fjóra mánuði. Ég er saklaus. Ég er viss um að ég hafi komið að honum liggjandi.“

Framburður Friðriks Brynjars fyrir dóminum var ekki sá sami og í yfirheyrslum í sumar. Friðrik sagði að málið hefði verið að skýrast fyrir honum á undanförnum vikum. Hann hélt því fram að eldri lýsingar hans á atburðum næturinnar væru „fabúleringar“ út frá samtalinu við Jónas 7. maí.

Í yfirheyrslu frá því í júlí sagði Friðrik Brynjar að hann hefði dregið Karl út á svalirnar. „Ég man ekki hví ég dró hann út á svalirnar en ég gerði það,“ sagði hann þá. Í gær sagðist hann „Hundrað prósent viss“ um að hafa ekki dregið hann þangað.

Minnisleysið stafar líklega af áfengisneyslunni

Geðlæknir sem gaf skýrslu fyrir dóminum í gær mat Friðrik Brynjar sakhæfan. „Hann segist að vísu stundum stríða við ofsareiði og hafa gert hluti án þess að muna eftir því, þá sem ungur maður og man ekki eftir því undir áhrifum áfengis,“ sagði geðlæknirinn.

„Ég hef reiðst oft en ekki af heift. Ég hef reiðst en ég er ekki ofbeldismaður [...] kannski sextán ára með sveitaballatöffaraskap. Það er ekki ég að ráðast að öðrum með vopni,“ sagði Friðrik Brynjar fyrir dóminum í gær.

„Ég hef bæði drukkið of oft og of mikið síðan ég byrjaði að drekka,“ sagði hann. Áfengismagn í blóði hans er talið hafa verið um, eða yfir, þrjú prómill um nóttina sem nálgast að vera áfengiseitrun.

Geðlæknirinn sagði að minnisleysið stafaði líklega af „blakkáti“ vegna áfengisneyslu. Bældar minningar í ofsareiði séu þó einnig til. Minni lagast ekki ef minnisleysið stafar af áfengisneyslu. Minnið geti lagast eftir mesta áfallið sem menn verða fyrir fyrstu dagana en hæpið sé að það skýrist verulega í seinni tíð. „Hafi hann haft aðgang að gögnum getur hann kannast við atburði sem hann man ekki eftir.“ Geðlæknirinn sagðist ekki hafa það á tilfinningunni að Friðrik Brynjar væri að gera sér upp minnisleysið.

„Það er ekki séns að minnið hafi dottið út akkúrat fyrir og eftir atburðinn. Minnið er ekkert skýrt allt kvöldið en ég man alveg hvernig kvöldið var. Það er enginn tími sem dettur út og ég get fyllt upp í,“ sagði Friðrik Brynjar fyrir dóminum. Fyrr í sumar sagði hann í yfirheyrslum: „það vantar líklega inn í það sem þið viljið vita.“

„Það er mögulegt að ég hafi um trúað að ég hafi getað gert þetta. Ég hef aldrei munað eftir því en ég hef haldið þar sem lögreglan sagðist vera með öll gögn og ég ætti bara eftir að segja já en ég hef aldrei trúað því sjálfur.“

„Ég veit ég gerði þetta ekki“

Eftir stendur að saksóknara hefur ekki tekist að tengja Friðrik Brynjar við morðvopnið.

„Ég er búinn að hugsa á hverjum degi, hverju kvöldi. Hnífur er ekki inni í myndinni. Allir sem þekkja mig eitthvað og hafa séð mig í eldhúsi vita að ég gæti ekki gert svona (með hníf). (Að hnífur hafi verið notaður) sannar fyrir mér og fjölskyldu minni að ég gæti ekkert gert neitt svona [...] um leið og ég heyrði frá lögreglunni að það hefði verið notaður hnífur sannfærðist ég eiginlega um að ég hefði ekki getað gert þetta.

„Ég held að það sé útilokað að fremja svona glæp og muna ekki eftir því. Ég veit ég gerði þetta ekki.“

 

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.