„Ég hef sterka tilfinningu fyrir því að þetta sé mjög fornt hús"

landnamsskali10„Við fundum klár merki um mannabústað," segir Dr. Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur, en í dag var grafin rannsóknarhola við Stöð í Stöðvarfirði í kjölfar þess að forkönnun á svæðinu sýndi fram á mögulegan landnámsskála á svæðinu.

Hafist var handa klukkan níu í morgun, en með Bjarna var einning fornleifafræðingurinn Ármann Dan ásamt fleira aðstoðarfólki.

„Það er alveg greinileg skálamynd í túninu hérna. Við lögðum prufuskurðinn með það að markmiði að við kæmum niður á langeld, því langeldar eru eldstæði sem einungis fundust í skálum, en ekki öðrum húsum. Í vinnuhúsum voru aðeins eldstæði, ekki langeldur.

Okkur varð ekki að þeirri ósk, en komum hins vegar niður á mjög gott gólf viðargólf, fullt af sóti, ösku og brenndum beinum, en það er alveg dæmigert fyrir mannabústað.

Þarna hefur fólk hafist við, ég veit að það er eldstæði í þessu húsi, en veit bara ekki enn hvort þetta er vinnuhús eða skáli að svo stöddu, það þarf frekari rannsóknir í það," segir Bjarni.

Bjarni segir húsið vera mun eldra en gjóskulagið frá því 1362.

„Öræfajökull er hérna í skurðinum og gólfið er vel undir því lagi. Þess vegna hef ég mjög sterka tilfinningu fyrir því að þetta sé mjög fornt hús, en svokölluð geislakols-aldursgreinina (C-14 aldursgreining) getur varpað ljósi á þetta og gefið upp nákvæma aldursgreiningu.

Ef að þetta er jafngamalt og mín tilfinning segir mér, að þetta sé frá landnámsöld, þá er skálinn í allra næsta nágrenni þó í ljós komi að þetta sé aðeins vinnnuhús, því þau stóðu aldrei ein og sér, heldur voru alltaf hluti af landnámsbæ."


Þjóðminjasafnið mun hreinsa menið

Við uppgröftinn í dag fannst men með litlu gati.

„Þetta er svokallaður „lausafundur" af því að hann fannst ekki beinlínis í gólfinu, heldur fannst hann í umróti þegar við vorum að koma að gólfinu.

Þetta er men með gati, en það er ekki hægt að útiloka að þetta sé mynt líka. Þetta er líkast til mjög forn gripur. Ég verð að láta hann á Þjóðminjasafnið þar sem hann er hreinsaður upp og þá getur komið í ljós það sem við viljum sjá, kannski einhverskonar mynstur, mynd eða hvaðeina.

Þegar svona finnst er manni hugsað til rómversku peninganna sem fundust í Berufirði fyrir margt löngu – þó ekki sé hægt halda því fram að þetta sé rómverskur peningur, en það er ekki hægt að verjast því að leiða hugann að því. Sem myndi ekki endilega segja að Rómverjar hafi verið hér, heldur að þeir sem hingað komu hafi tekið með sér þetta skart sem upphaflega var rómverskur peningur.


Heimamenn verða að ákveða næstu skref

Bjarni segir næstu skref vera að fá að vita hjá heimafólki hvort áhugi sé fyrir hendi að láta greina sýnin sem tekin voru í dag.

„Fyrst yrði það send í viðartegundagreiningu og þaðan erlendis í áframhaldandi greininu, sem tekur um mánuð. Eftir að sú niðurstaða berst yrði svo enn að ákveða hvað ætti að gera. Kannski er þetta skáli en kannski ekki. Á að kosta því til sem þar til þess að ganga úr skugga um það. Ef svo skemmtilega vildi til að um skála væri að ræða yrði það fyrsti staðfesti skálinn sem finnst á Austurlandi og öruggt er að hann væri heill."

landnamsskali1landnamsskali2landnamsskali3landnamsskali10

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.