Skoða Wasabi-ræktun hjá Barra: Ein flottustu gróðurhús í Evrópu

wasabi kynning webForsvarsmenn Wasabi Iceland hyggjast koma ræktun sinni á japönsku kryddjurtinni fyrir í gróðurhúsi Barra á Fljótsdalshéraði. Vonast er til að hægt verði að hefja ræktunina í byrjun næsta árs.

„Við höfum heyrt það frá öðrum að Barri sé með ein flottustu gróðurhús í Evrópu," segir Ragnar Atli Tómasson sem stofnaði fyrirtækið ásamt Johan Sindra Hansen.

Ræktunin þarf um 500 fermetra af þeim 4000 sem til staðar eru í húsunum. Horft er til að stækka svæðið til að anna eftirspurn þegar fram líða stundir.

„Við þurfum gróðurhús með hita og birtustýringu og hvort tveggja er til staðar hjá Barra."

Ragnar segir unnið að fjármögnun fyrirtækisins en kynning var haldin fyrir fjárfesta í húsum Barra í síðustu viku.

Áætlanir þeirra gera ráð fyrir að hefja ræktun í byrjun næsta árs. Ár tekur að rækta plöntuna svo fyrstu afurðir gætu komið á markað í byrjun árs 2017. „Við ætlum að fara af stað eins fljótt og hægt er."

Wasabi er asísk kryddjurt, einkum vinsæl með sushi. Í dag er um 95% af því sem kynnt er sem wasabi blanda af piparrót, sinnepi og matarlit.

Alvöru wasabi er unnið úr stöngli plöntunnar og er afar verðmætt því það er helst borði fram á fínustu veitingahúsum heims eða selt í sælkeraverslunum. Gert er ráð fyrir að meirihluti sölunnar verði erlendis.

Í kynningu Wasabi Iceland segir að fyrirtækið verði eini ræktandinn í Evrópu sem geti afhent ferska plöntu allt árið um kring. Enginn ræktandi í Evrópu uppfyllir ströng ræktunarskilyrði í dag. Sá eini sem til staðar er ræktar aðeins utandyra og getur því ekki afhent allt árið.

Ræktað verður í jarðvegslausum vatnsræktarkerfum. Rótarfestan verður íslenskur eldfjallavikur og ræktunin í hátæknigróðurhúsunum á að tryggja stöðug gæði uppskeru.

Ísland þykir vel staðsett til að flytja ferska vöru til Evrópu eða Bandaríkjanna. Rafmagnskostnaður er lágur og vatnið einstakt því lítið er af uppleystum efnum til staðar. Þá þykir temprað loftslag henta vel.

Frá kynningu í Barra. Ragnar og Johan til vinstri. Mynd: Úr einkasafni

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.