Málþing um Pésann: Hvaða mynd gefur hann af samfélaginu í skólanum?

pesinn malthing nov15 0008 webÁ sjöunda tug nemenda, fyrrum nemenda og kennara mættu á málþing um Pésann, blað nemenda í Menntaskólanum á Egilsstöðum í gærkvöldi. Formaður nemendafélags skólans (NME) segir til þessa hafa verið óvinsælt að ræða breytingar á blaðinu sem lengi hefur verið umdeilt.

„Fyrir kosningar í vor fór ég að ræða að ég vildi breyta Pésanum. Þegar ég fann að það var óvinsælt og heyrði að fólk ætlaði ekki að kjósa mig út af því dró ég úr því," segir formaðurinn, Rebekka Karlsdóttir.

Pésinn hóf göngu sína árið 1990. Hann er gefinn út af NME nokkrum sinnum á skólaárinu. Slúðursögur og skot á nemendur hafa verið umtalaðasta efnið í blaðinu en það hefur einnig innihaldið ljóð, sögur og aðrar greinar.

Rebekka segist hafa haft gaman af blaðinu fyrst þegar hún byrjaði í skólanum. Hún hafi hins vegar endurskoðað viðhorfið eftir að hún tók við sig formaður. Hún hafi farið að velta fyrir sér hvaða ímynd hann gæfi af skólasamfélaginu og fundið fyrir að fyrirtæki veigruðu sér við að styrkja félagið út af blaðinu.

Mest athygli frá fyrrum nemendum

Málþingið í gær var haldið að undirlagi nemenda sem vildu ræða breytingar á blaðinu því skotin hafa stundum geigað illa. Í aðdraganda þingsins var meðal annars talað um að stelpur hefðu sérstaklega verið teknar fyrir í blaðinu og tiltækið vakið mikla athygli.

Rebekka sagði mestu athyglina hafa komið frá fyrrum nemendum skólans sem bæði hefðu deilt óförum sögum af líðan sinni eftir að hafa verið teknir fyrir í blaðinu eða fyrrum ritnefndarfólki sem í dag iðraðist skrifa sinna.

„Við viljum með þessu málþingi vekja núverandi nemendur til umhugsunar svo þeir þurfi ekki að lenda í sömu stöðu."

Hún minnti á að þótt rík hefð væri að baki Pésanum væri hann ekki ósnertanlegur. Rebekka rifjaði til dæmis upp að nýbúið væri að leggja af busunum skólans og nýjar móttökur nýnema mælst vel fyrir.

Fyrrum nemendur með eftirsjá

Fyrir fundinum lágu bréf frá fyrrum nemendum, bæði óbreyttum og ritstjórum. Í flestum var dregin upp dökk mynd af blaðinu, það meðal annars nefnt „eineltispappír," sagt frá hótunum til að fá stúlkur til að koma fram í honum, að hlegið væri að en ekki með einstaklingum og hann hefði verið vettvangur árása félagslega sterks hóps á þá sem stóðu utan hópsins.

Fyrrum ritnefndarmeðlimir báru við þekkingarskorti á sínum tíma og bentu á að mörg þeirra hugtaka sem nú væru notuð í gagnrýninni á blaðið hefðu vart þekkst á þeirra árum. Flestir lýstu Pésanum sem barni síns tíma og gengu jafnvel svo langt að segja að hann ætti ekki að vera til.

Stolt af umræðunni

Eldri nemendur á fundinum hrósuðu þeim sem nú eru í skólanum líka fyrir að ræða málefni blaðsins opinskátt.

„Við erum stolt af ykkur fyrir að taka umræðuna. Við þorðum ekki að ganga gegn gildunum. Við héldum á sömu braut og fannst við hafa rétt til að skjóta á aðra," sagði Dagmar Ýr Stefánsdóttir, fjölmiðlafræðingur og fyrrverandi Pésastýra.

Hún sagði margt skemmtilegt hægt að finna í gömlum blöðum en þar væru samt hlutir sem fyrri ritnefndarmeðlimir þyrftu að skammast sín fyrir. Það væru sömu hlutir og þeir hefðu sammast sín fyrir á sínum tíma.

Dagur Skírnir Óðinsson, fyrrum nemandi og kennari við skólann, hvatti nemendur til að ráða örlögum Pésans sjálfir. „Ekki láta skólann eða aðra taka fram fyrir hendurnar á ykkur í þessu máli. Þið vitið sjálf hvað er réttast."

Á umræðum núverandi nemenda virtist mega merkja vilja til að halda áfram reglulegri útgáfustarfsemi á þeirra vegum, þó ekki endilega í núverandi mynd. Meðal annars var rætt að leggja blaðið niður og byrja alveg frá grunni eða nefna blaðið upp á nýtt. Því myndu fylgja ný efnistök, svo sem viðtöl við einstaklinga, skoðanagreinar og áhersla á hið fallega og skemmtilega við skólaskemmtanir.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.