Áfangastjórinn: Grafið holu og jarðsetjið Pésann með viðhöfn

arni olason pesamalthing nov15Árni Ólason, áfangastjóri Menntaskólans á Egilsstöðum, hvatti nemendur til að hætta útgáfu Pésans á málþingi sem haldið var um blað nemenda í skólanum í gær. Þeir nemendur sem orðið hafi fyrir barðinu á blaðinu skipti hundruðum.

„Pésinn er eitt af því sem flotið hefur áfram tímalaust. Það er alltaf jafn gaman að hlægja að öðrum ef það kostar mann ekki neitt sjálfur," sagði Árni á málþinginu.

Pésinn hóf göngu sína árið 1990. Hann er gefinn út af nemendafélagi skólans nokkrum sinnum á skólaárinu. Slúðursögur og skot á nemendur hafa verið umtalaðasta efnið í blaðinu en það hefur einnig innihaldið ljóð, sögur og aðrar greinar.

En skotin hafa stundum geigað illa þannig að sár hafa hlotist að. Málþingið í gær var haldið að undirlagi nemenda sem vildu ræða breytingar á blaðinu. Það hefur vakið athygli víða en í aðdraganda þingsins var meðal annars talað um að stelpur hefðu sérstaklega verið teknar fyrir í blaðinu.

Árni hefur sjálfur fylgt Pésanum lengi því hann hefur starfað við skólann nær sleitulaust frá árinu 1992. „Ég veit ekki hversu mörgum Pésum ég hef flett," sagði Árni áður en hann lýsti þeirri skoðun sinni „löngu væri kominn tími á að loka blaðinu."

Árásir á minnimáttar eru aldrei boðlegar

Hann sagði kennara skólans hafa rætt stöðu Pésans á hverju ári en hverri nýrri stjórn nemendafélagsins verið gefinn kostur á að bæta sig. Stundum hefðu komið framfarir en hlutirnir oftast fallið aftur í sama farið. „Mér til gríðarlegs fagnaðar finnst mér þetta vera að breytast síðustu ár," sagði Árni.

„Valdi fylgir ábyrgð. Öll þau sem stýrt hafa Pésanum hafa reynt að gera sitt besta en straumurinn er þannig að stundum ske hlutir.

Húmorinn yfirleitt sá sami að henda skít í náungann. Þótt margt sé vel gert er blaðið ekki boðlegt ef árásir eru stundaðar á minnimáttar. Þeir skipta hundruðum í dag sem hafa fengið högg, jafnvel frá vinum sínum."

Árni hvatti núverandi nemendur til að endurskoða tilveru blaðsins. „Við hljótum að geta notað okkar besta fólk í annað en að fara með myndavél á böll að mynda fólk á lægstu stundum lífs síns. Hvert slíkt atvik er harmleikur sem við eigum ekki að láta viðgangast.

Þið getið grafið holu hérna úti og jarðsett Pésann með viðhöfn. Þið getið skrifað söguna."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.