„Skrilljón tækifæri til að láta gott af sér leiða"

NAUSTAðalfundur Náttúruverndarsamtaka Austurlands, NAUST, var haldinn á Egilsstöðum í október.


Á dagskránni var meðal annars greinagóð umfjöllun Hjörleifs Guttormssonar um 45 ára sögu samtakanna í máli og myndum, skráning nýrra félaga og afgreiðsla ályktana. Þá var kjörin ný stjórn NAUST en hana skipa Erla Dóra Vogler, Þórhallur Pálsson og Sóley Valdimarsdóttir.


Hef alltaf kunnað að meta náttúru landsins

Erla Dóra var kjörin í formannsembættið.

„Í stuttu máli þá líst mér vel á formannsembættið. Ég hlakka mjög mikið til þess að taka virkan þátt í samtökunum með því að halda áfram því gríðarlega mikilvæga starfi sem unnið hefur verið frá upphafi þeirra árið 1970. Eins og ég sagði á fésbókarsíðu minni um daginn þá eru í þessu fólgin „skrilljón tækifæri til að láta gott af sér leiða". Er ekki um að gera að velja á hvaða vettvangi maður vill vera virkur og gera það af krafti? Ég hef alltaf kunnað að meta náttúru landsins og er ekkert of góð til að nýta hluta af frítíma mínum í að standa vörð um hana hér austanlands, halda réttindum hennar á lofti og beina athygli að því hve algjörlega ómetanlegir ýmsir staðir sem við eigum hér eru."


Af nógu er að taka

Hver verða helstu áherslumálin sem ný stjórn kemur til með að vinna að?

„Þar sem stjórnin var bara kosin á laugardaginn höfum við enn ekki hist til þess að fara yfir hverjar helstu áherslurnar verða en af nógu er að taka.

Á aðalfundinum voru samþykktar þó nokkrar ályktanir og mun eitt af okkar fyrstu verkum verða að koma þeim á framfæri. Ein þeirra er afar spennandi og snýr að mögulegri gull- og koparleit á Austurlandi en aðalfundurinn hvetur sveitarstjórnarmenn á Austurlandi til að kanna til hlítar og kynna fyrir almenningi hvað felst í fyrirætlunum um gull- og koparvinnslu í nágrenni forneldstöðvanna sem kenndar eru við Fagradal í Vopnafirði og Þingmúla. Allar ályktanir fundarins er að finna á Facebooksíðu NAUST.

Einnig þarf að yfirfara félagatal samtakanna og viljum við hvetja alla sem áhuga hafa á náttúruvernd og ekki eru félagar nú þegar til að ganga í samtökin – hvort sem er til þess að styðja starfsemi þess eða verða virkur félagi. Hægt er að gerast félagi með því að hafa samband við eitthvert okkar stjórnarmeðlima NAUST eða með því að senda inn beiðni á fésbókarsíðu NAUST."


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.