Staðfest að flogið verði tvisvar í viku milli Egilsstaða og London

thota egs 14042015 0007 webTilhögun beins flugs milli Egilsstaða og Lundúna er kynnt á blaðamannafundi sem hófst klukkan hálf tvö í flugstöðinni á Egilsstöðum. Flogið verður á miðvikudögum og laugardögum allt næsta sumar.

Samkvæmt heimildum Austurfréttar hefst flugið þann 28. maí og stendur til 24. september. Farið verður tvisvar í viku á milli Egilsstaða og Gatwick flugvallar við London á miðvikudögum og laugardögum.

Flugið verður á vegum bresku ferðaskrifstofunnar Discover the World og hefur átt sér töluverðan aðdraganda. Skrifstofan leigir 144 sæta Boeing 737-700 vélar í verkið.

Viðræður hafa átt sér stað um framhald flugsins, svo sem yfir veturinn 2017 en allt framhald verður metið af því hvernig til tekst næsta sumar. Áætlað er að hvert flug kosti um sex milljónir króna þannig að einhvern tíma gæti tekið að byggja upp flugleiðina.

Í mars skipaði forsætisráðherra nefnd til að meta möguleika á millilandaflugi frá Egilsstöðum og Akureyri. Nefndin hefur ekki skilað af sér enn en ráðherrann hefur verið eystra í dag ásamt fleiri þingmönnum í tengslum við kynninguna á fluginu.

„Það skiptir okkur máli að opna aðra fluggátt inn í landið því það er álag fyrir okkar viðskiptavini að fara um Keflavík. Þangað eru að meðaltali 75 flug á dag sem flest fara eða koma á sama tíma sem þýðir að flugstöðin er yfirfull.

Á sama tíma horfir maður á Egilsstaði þangað sem eru þrjú flug á dag, menn eru fljótari í gegnum flugstöðina og komast þar með fyrr út í náttúruna," sagði Clive Stacey, eigandi ferðaskrifstofunnar í samtali við Austurgluggann í ágúst.

Í nýrri ferðamálastefnu íslenska ríkisins, sem kynnt var í gær, er meðal annars lögð áhersla á dreifingu ferðamanna um landið.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.