Orkumálinn 2024

Ólöf Nordal: Prestar eru opinberir embættismenn sem halda á veraldlegu valdi

olof nordal sept15 0012 webÓlöf Nordal, innanríkisráðherra, segir að prestar geti ekki mismunað pörum um giftingar á grundvelli kynhneigðar á meðan þeir séu opinberir starfsmenn. Hún segir breytingatillögu á hjúskaparlögum um samviskufrelsi presta hafa verið lagða fram í annarri umræðu en nú ríki.

„Umræðan þá var á mörgum sviðum og kirkjan vissi ekki í hvorn fótinn hún átti að stíga varðandi þetta mál. Það var verið að tala um hvort trúfélög ættu að geta gefið pör saman þannig það hefði lögformleg áhrif og tillagan var sett fram í þeim anda.

Síðan varð ekkert af því að lögunum yrði breytt þannig að trúfélögin yrðu bara blessunaraðilar. Þess vegna kemur tillagan núna skakkt inn í umræðuna."

Þetta sagði Ólöf í samtali við Austurfrétt en Fréttablaðið fjallaði á forsíðu sinni á föstudag um tillögu hennar og Birgis Ármannssonar frá 2009 um að vígslumönnum trúfélaga skyldi ekki vera skylt að framkvæma hjónavígslu ef hún stríddi gegn trúarlegri sannfæringu þeirra.

„Þetta var hugsað þannig að ef prestar væru í blessunarathöfn sem ekki væri löggjörningur heldur bara trúarathöfn þá gætu þeir hafnað því.

En ef prestur er, eins nú núna, opinber embættismaður og athöfn hans hefur áhrif samkvæmt lögum þá er mjög hæpið fyrir hann að fara að mismuna mönnum á grundvelli kynhneigðar. Prestar eru opinberir embættismenn og halda á veraldlegu valdi líka."

Eignamálin flækja samskipti ríkis og kirkju

Á opnum fundi sjálfstæðismanna á Eskifirði á fimmtudagskvöld var Ólöf einnig spurð út í mögulegan aðskilnað ríkis og kirkju. Í samtali við Austurfrétt sagði Ólöf að taka þyrfti til endurskoðunar samskipti ríkis og kirkju.

„Þarna á milli hafa verið deilur og ég held að málið sé komið á það stig að við þurfum að taka það allt upp og ræða hvernig þessi samskipti eiga að vera," sagði Ólöf.

Hún benti meðal annars að stundum kæmu inn í þingið frumvörp sem skrifuð væru af kirkjunni og þingmenn hefðu engin áhrif á heldur töluðu aðeins fyrir. Aðspurð um hvort það væri æskilegt ferli svaraði hún. „Nei, ég held það væri allt í lagi fyrir okkur að fara að ræða þessa hluti."

Hún ítrekaði hins vegar að málefni ríkis og kirkju yrðu ekki leyst á svipstundu. Stærsta úrlausnarefnið séu eignarréttarmálin en ríkið samþykkti á sínum tíma að borga laun presta gegn því að fá jarðir kirkjunnar.

„Ég held að málið væri ekki svona flókið ef ekki væri fyrir þessar jarðir. Þetta eru feykilega miklar eignir."

„Myndi segja að ég væri stigin aftur inn í stjórnmálin"

Ólöf tók við ráðherraembættinu í byrjun árs eftir afsögn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Hún var þingmaður Norðausturkjördæmis árin 2007-9 en er nú ráðherra utan þings. Aðspurð sagðist hún ekki útiloka þingframboð eftir tvö ár.

Ólöf var áður varaformaður Sjálfstæðisflokksins og hefur verið orðuð við framboð til þess embættis á landsfundi flokksins í lok október.

„Ég er aðallega að reyna að komast heim," sagði Ólöf aðspurð um hvort hún væri að undirbúa framboð til varaformanns en Austurfrétt hitti á hana á flugvellinum á Egilsstöðum að lokinni síðustu sprengingunni í Norðfjarðargöngum á föstudagskvöld..

„Mér finnst gaman að vera komin aftur í pólitík, ég nýt þess að vera í þessu. Mér finnst gaman að vinna að þessum verkum. Ég myndi segja að ég væri stigin aftur inn í stjórnmálin. Ég á bara eftir að taka ákvörðun um að bjóða mig aftur fram og sú ákvörðun bíður mín á næstunni."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.