Starf ríkisins á Borgarfirði laust til umsóknar

borgarfjordur eystriÞað er ekki á hverjum degi sem að auglýst er starf á vegum ríkisins á Borgarfirði eystri. Nú er það hins vegar reyndin, en Heilbrigðisstofnun Austurlands auglýsti nýverið eftir hjúkrunarfræðingi eða sjúkraliða í 40% starf á Borgarfirði.

Jón Þórðarson, sveitarstjóri á Borgarfirði, segir að um sé að ræða eina starfið á vegum ríkisins á Borgarfirði eystri. Um hafi verið að ræða hálft starf hjúkrunarfræðings en viðkomandi sé að flytja búferlum og sér sýnist verið að minnka starfshlutfallið nú þegar staðan er auglýst.

„Ég hafði upplýsingar um að til stæði að auglýsa starfið en við höfum annars ekkert rætt við HSA eða þeir við okkur. Við þurfum hins vegar að fara að ræða við þau um þjónustuna hér á Borgarfirði. Ef ég man rétt þá hefur til að mynda ekki komið hingað læknir með viðtalstíma síðan í febrúar 2009.“

Nína Hrönn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá HSA, segir að stærstu verkefni hjúkrunarfræðings á Borgarfirði séu heimahjúkrun og skólahjúkrun, en einnig ungbarnavernd og ýmiskonar eftirfylgni, forvarnastarf og fræðsla.

„Við auglýsum eftir hjúkrunarfræðingi eða sjúkraliða, en það er til þess að geta ráðið sjúkraliða til að sinna heimahjúkrun ef enginn hjúkrunarfræðingur sækist eftir starfinu. Ef það verður niðurstaðan mun hjúkrunarfræðingur fara reglulega til Borgarfjarðar til að styðja við og sinna ákveðnum verkefnum.“

Aðspurð segir Nína að ekki sé verið að skerða það starfshlutfall sem verið hefur. „Fram til þessa hefur hjúkrunarfræðingur verið í hálfu starfi, en þá með samningi við Lyfju um að hafa lyfjaafgreiðslu opna á staðnum. Við höfum ekki viljað auglýsa starfið þannig en ef að áhugi er hjá nýjum starfsmanni að sinna lyfjaafgreiðslu þá munum við taka það upp við Lyfju. Það er í það minnsta okkar markmið með þessu að viðhalda óbreyttri þjónustu á Borgarfirði.“

Umsóknarfrestur um starfið er til 7. september.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.