Tæplega 3000 farþegar komu með Costa Fortuna til Seyðisfjarðar

20150726 072349Skemmtiferðaskipið Costa Fortuna kom til Seyðisfjarðar síðastliðinn sunnudag með tæplega 3000 farþega. Þetta er í annað sinn í sumar sem þetta gríðarstóra skip leggst við bryggju á Seyðisfirði, en aldrei hafa fleiri farþegar komið með skemmtiferðaskipi til Seyðisfjarðar í einni ferð. Jóhann Hansson, hafnarvörður á Seyðisfirði, segir ekkert vandamál að taka á móti þessum fjölda farþega.

„Það er bara eins og þegar önnur skemmtiferðaskip koma hingað, bærinn er bara fullur af fólki,“ segir Jóhann í samtali við Austurfrétt. „Við fáum á milli tvö- og þrjúþúsund manns í gegnum bæinn í hverri einustu viku yfir sumarið með Norrænu. Þá eru oft 1200 að koma og 1200 að fara. Þannig að það er ekkert mál að fá allt þetta fólk hingað. Ef eitthvað er, þá er troðnara þegar Norræna kemur, því þá eru miklu fleiri bílar í bænum, stundum allt að 400 ökutæki.“

Ónægt framboð bílaleigubíla og leigubíla
Mikill fjöldi farþega kýs að fara í rútuferðir um Austurland á meðan að skipið liggur við bryggju og bóka farþegarnir þær ferðir um borð í skipinu. „Ég veit nú ekki alveg hvað það fóru margir í rútuferðir úr firðinum. Ég veit samt að það fóru fjórar rútur í Skálanes og fimm hópar í gönguferðir á vegum þeirra í Skálanesi,“ segir Jóhann.

„Það eina sem hefði vantað væru fleiri leigubílar og bílaleigubílar handa fólki sem vill fara á eigin vegum. Það eru töluvert margir sem vilja ekki fara í rútuferðir og kjósa frekar að ferðast einir.“

Búa sig undir að taka á móti enn stærra skipi

Costa Fortuna er risavaxið skemmtiferðaskip og það stærsta sem hefur sótt Seyðisfjörð heim. Annað og stærra skip frá sama skipafélagi kemur til Seyðisfjarðar á næsta ári. „Það kemur annað skip frá Costa Cruisers á næsta ári, sem heitir Costa Pacifica. Það er 20 metrum lengra og kemur þrisvar sinnum, með ennþá fleiri farþega,“ segir Jóhann.

Þess má geta að Costa Pacifica er systurskip Costa Concordia, sem strandaði við vesturströnd Ítalíu árið 2012, með þeim afleiðingum að 32 farþegar létu lífið. Skipstjórinn í því strandi var dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir manndráp og vítavert gáleysi.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.