Þorvaldur Jóhannsson: Vildi Austurland í eitt sveitarfélag

thorvaldur johannsson juni15Þorvaldi Jóhannssyni, fyrrum bæjarstjóra á Seyðisfirði og framkvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, þykir það miður að ekki hafi verið unnið áfram með hugmynd um sameiningu Austurlands í eitt sveitarfélag.

Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Þorvald í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Sameiningarvinnan var eitt af síðustu verkum sem framkvæmdastjóri SSA þar sem hann lét af störfum haustið 2010. Sú vinna hefur síðan verið lögð á hilluna.

„Ég hef sagt að mér finnist það til skammar fyrir sveitarstjórnarmenn á Austurlandi að vera ekki það stórhuga að halda áfram þótt það tæki tíma. Ég var búinn að sjá fyrir mér að þetta væri hægt á tíu árum, fyrst yrði millistig þar sem sveitarfélögin yrðu tvö og skipt á Fagradal.

Á Austurlandi búa 10.500 manns, eins og við eina götu í stórborg, en við erum að bjástra í litlum einingum. Það hefur fækkað mikið í byggðarlögum eins og Seyðisfirði og það er erfitt að halda þjónustunni gangandi og uppfylla kröfur nema baklandið sé sterkt.

Ég held að samtakamátturinn gæti orðið til þess að við gætum tekið þokkalega á þessum málum. Menn verða að sjá það og ég held að unga fólkið sjái það en það tekur lengri tíma en maður hélt."

Þorvaldi virðist sem eina kynslóð vanti í viðbót til að útrýma hrepparígnum svo af þessu verði. Helst hafi deilur komið upp í samgöngumálum en það sé því of lítið fé sé í málaflokknum yfir höfuð.

„Smá rígur og metnaður er eðlilegur en hann er ekkert í líkingu við það þegar menn töluðust varla við. Ég á barnabörn í menntaskólanum og það eru ekki til landamæri hjá þessum krökkum þótt þeir eigi heima í sínum fjörðum og standi með þeim. Þau horfa allt öðruvísi á þetta."

Hann skilur hins vegar að unga fólkið hugsi sig tvisvar um áður en það gefi kost á sér til starfa í stjórnmálum.

„Ég er sannfærður um að stjórnsýslukerfið okkar er orðið alltof flókið og unga fólkið okkar, sem er drífandi og duglegt, situr oft hálf grátandi þegar það fattar að það þarf að fara með málin sín í gegnum hin og þessi ráð og kynna fyrir öllum sem tekur óhemju tíma þannig að málin þynnast út svo oft á tíðum gefst fólk upp.

Við vitum að lýðræðið kostar töluvert en mér finnst þetta orðið alltof mikið mál og fráhrindandi að sitja í sveitastjórnum og íslenskri pólitík."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.