Þeir sem þurfa að nota innanlandsflug tapa á flutningi flugvallarins

flug flugfelagislands egsflugvÁætlaður ábati af nýjum flugvelli í Hvassahrauni byggist nær eingöngu á íbúum höfuðborgarsvæðisins sem nýta sér millilandaflug. Farþegar í innanlandsflugi tapa á nýjum velli.

Þetta kemur fram í niðurstöðum Rögnunefndarinnar svokölluðu, um flugvallarstæði á höfuðborgarsvæðinu, sem kynnt var í gær en Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann frumathugum að hagkvæmni vallar í Hvassahrauni við Hafnarfjörð.

Heildartap innanlandsfarþega núvirt til 50 ára á verðlagi ársins 2015 af flutningi flugvallar er metið 2-7 milljarðar króna þar sem flutningur innanlandsvallarins leiði til aukins ferðakostnaðar þeirra sem nota það.

Áætlað tap íbúa höfuðborgarinnar og jaðarbyggða nemur 1,4 milljörðum og tap vegna fækkunar flugfarþega tveimur milljörðum.

Ábatinn veltur á millilandafluginu

Tap íbúa landsbyggðarinnar er metið á 850 milljónir króna. Það byggir hins vegar á að 4,4 milljarða ábata þeirra íbúa sem nota innanlandsflug til að komast í millilandaflug er dreginn frá 5,3 milljarða tapi þeirra sem eingöngu fljúga innanlands.

Annars staðar er ábati þeirra íbúa landsbyggðarinnar sem ekki nota innanlandsflug til að komast í millilandaflug metinn á 2-3 milljarða króna. Þannig er fengin sú niðurstaða að ráðstöfunin sé ábatasöm fyrir íbúa landsbyggðar.

En ábatinn er langmestur fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins og jaðarbyggða sem ætla í millilandaflug því hann er metinn á 34-48 milljarða króna. Í skýrslunni segir að aðeins sé litið til íslenskra farþega.

Þörf á uppbyggingu

Hópurinn skoðaði ekki möguleika flutnings innanlandsflugs til Keflavíkur en mat auk Hvassahrauns möguleg flugvallarstæði á Bessastaðanesi, Lönguskerjum, Hólmsheiði og breyttan völl í Vatnsmýri.

Ekki var metinn ábati af óbreyttum velli í Vatnsmýri en miðað við áætlaðar farþegatölur er ljóst að breytinga er þar þörf. Í fyrra fóru um 330 þúsund manns um völlinn en áætlað er að þeir verðu orðnir 500 þúsund árið 2040. Ábati af uppbyggingu í Vatnsmýri er metinn 52-73 milljarðar króna.

Þá er bent á að þörf sé fyrri miklar breytingar á Keflavíkurflugvelli. Fjórar milljónir farþega fóru um völlinn í fyrra en spár gera ráð fyrir 12-15 milljónum árið 2050.

Heildarábati af uppbyggingu vallarins í Hvassahrauni er metinn 82-123 milljarðar króna sem þýðir að hann má kosta það mikið dýrari en allur kostnaður við vellina í Keflavík og Reykjavík þar til hann telst þjóðhagslega óhagkvæm fjárfesting. Til þess að svo megi verða er gengið út frá því að allt innanlands og millilandaflug sameinist á vellinum og hægt verði að spara á móti á öðrum völlum.

Völlurinn í Hvassahrauni var sá kostur sem metinn var fjærst frá Landsspítalanum. Gerðar voru tilraunir með akstur þangað og í ljós kom að aksturinn lengist um 7,5-11,5 mínútur. Í dag tekur 5-6 mínútur að fara með sjúkrabíl úr Vatnsmýrinni, hvort sem er í Fossvog eða Hringbraut. Meðallengd sjúkraflugs er 152 mínútur, frá því að beiðni berst þar til lent er með sjúkling.

Kallað eftir opinni og sanngjarnir umræðu

Hvassahraun er það flugvallarstæði sem talið er hafa mesta möguleika á þróun til framtíðar. Meðal annars var litið til umhverfisáhrifa, landrýmis, veðurfars og kostnaðar.

Í niðurlagi skýrslunnar er kallað eftir umræðu um hana með opnum og sanngjörnum huga. Þar segir einnig að rekstrarflugöryggi núverandi flugvallar í Reykjavík skuli tryggt á meðan undirbúningur og framkvæmdir fyrir aðra staði fari fram.

Hópurinn var skipaður haustið 2013 og kenndur við formanninn, Rögnu Árnadóttur. Í honum sátu einnig Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir frá ríkinu, Matthías Sveinbjörnsson frá Icelandair og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.

Honum til fulltingis var samráðshópur frá ýmsum hagsmunaaðilum. Þar sátu Eiríkur Björn Björgvinsson, fyrrum bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs og Eyrún Arnardóttir, bæjarfulltrúi á Fljótsdalshéraði fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.