Vonast eftir að sátt sé komin um veglínu um Berufjarðarbotn

berufjardarbotn oxi vegkortSveitarstjórn Djúpavogshrepps undirbýr breytingu á aðalskipulagi hreppsins með nýrri veglínu um Berufjarðarbotn þannig að hægt verði að ráðast ráðast í veglagningu þar. Hún treystir því að landeigendur fyrir botni fjarðarins séu nú orðnir sáttir um eina veglínu yfir fjörðinn. Deilur hafa staðið um veglagninguna árum saman.

Með bréfi til sveitarstjórnarinnar í apríl lögðu landeigendur jarðarinnar Berufjarðar til að farin yrði veglína Z eða Q sem eru þær sem liggja yst í firðinum og stytta leiðina yfir hann mest.

Í matsskýrslu fyrir framkvæmdirnar kemur fram að val á veglínunni utan við leirurnar valdi skerðingu á fjörum og geti breytt aðstæðum fyrir lífríkið fyrir innan veg til hins verra. Skerðing á túnum og ræktuðu landi hafi áhrif á efnahagslegt gildi fyrir þá sem þar eigi í hlut.

Vert er þó að taka að því að varað er við neikvæðum áhrifum nær allra veglínanna á lífríkið á leirunum. Veglína X, sem staðfest var á núgildandi skipulag í byrjun síðasta árs liggur yfir ós Berufjarðarár og myndar T-gatnamót við Axarveg sem landeigendurnir hafa lagst gegn. 

Tilbúnir að beita sér gegn veglagningunni

Í bréfi landeigendanna er varað við að með þeirri veglínu tapist „allt aðgengi að firðinum endanlega bæði til leikja og starfa". Það þýði „stórkostlega rýrnun" hennar en fjaran hafi verið vinsælt frístunda- og leiksvæði.

Bent er á að hlunnindi af silungi verði engin, fuglalífi verði raskað til framtíðar, endir bundinn á aðgang sauðfjár að sjó auk þess sem hávaði með aukinni umferð minnki lífsgæði ábúenda.

Mótmæli eru ítrekuð við núverandi vegstæði í niðurlagi bréfsins þar sem landeigendurnir heita því að gera hvað sem þeir geti til að af framkvæmdunum verði.

Vonast til að geta byrjað á næsta ári

Deilur um veglínur í Berufirði hafa staðið lengi en meðal annars var tekist á um framkvæmdina fyrir sveitarstjórnarkosningar á Djúpavogi í fyrra. 

Í bókun frá síðasta fundi sveitarstjórnar segir með bréfinu sé ljóst að í fyrsta sinn séu allir landeigendur við botn fjarðarins sammála um veglínu. Í trausti að yfirlýsingar landeigendanna standi fari af stað til að færa veginn á línu Z, með þeim fyrirvara að henni verði lítillega breytt þegar nánari rannsóknir liggi fyrir.

Lögð er áhersla á að „það tímafreka og kostnaðrasama" skipulagsferli sem framundan er gangi hindrunarlaust fyrri sig. Gangi allt eftir verði breyting skipulagsins staðfest um næstu áramót þannig hægt verði að bjóða út vegagerðina. Sveitarstjórnin heitir því að beita sér fyrir því við þingmenn og vegamálastjóra að framkvæmdin taki tvö ár en ekki þrjú ár eins og gert er ráð fyrir.

Breyting á aðalskipulagi hreppsins vegna vegagerðarinnar verður kynnt á íbúafundi sem hefst klukkan 17:00 í Djúpinu/Sambúð í dag.

Þar verða einnig kynntar frumhugmyndir að deiliskipulagi miðsvæðis á Djúpavogi en þar er sérstaklega óskað eftir hugmyndum og ábendingum frá fundarmönnum.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.