Vigdís Hauksdóttir: Vegamálin eru næst á dagskrá

vigdis hauksdottir mai15 0001 webVigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segir að samgöngumál séu næsta forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Hún segir að stofnanir verði ekki sameinaðar nema af því sé sýnilegur ávinningur.

„Við höfum rætt samgöngumálin og þau eru það sem er raunverulega næsta á dagskrá hjá ríkisstjórninni þegar búið er að uppfylla forgangskröfu um heilbrigðis- og menntamál. Það er ekki hægt að líta framhjá því lengur," sagði Vigdís í samtali við Austurfrétt.

Hún heimsótti Fljótsdalshérað nýverið í boði bæjarstjórnar og kom við hjá ýmsum fyrirtækjum og stofnunum í sveitarfélaginu. Hún sagðist ánægð með heimsóknina.

„Það er ómetanlegt að koma og sjá þann kraft sem hér er með fjölbreyttum fyrirtækjum og atvinnurekstri."

Vigdís heimsótti meðal annars gróðrarstöðina Barra en kallað hefur verið eftir auknu fjármagni til skógræktar þannig að hægt verði að byggja atvinnugreinina upp til framtíðar. Dregið var úr fjárveitingum til gróðursetningar eftir hrun og óttast skógarbændur að það leiði til niðursveiflu í skógariðnaði síðar.

Vigdís kvaðst fara heim með „skýr skilaboð" um að taka yrði ákvörðun fyrri málaflokkinn til framtíðar. „Í stjórnarsáttmálanum stendur að auka skuli skógrækt til muna. Það er ekki hægt að láta hús eins og hjá Barra standa hálftóm og allir vonast eftir ákvörðun til framtíðar."

Þá hafa einnig verið ræddar hugmyndir um sameiningu Skógræktar ríkisins, sem hefur í rúm tuttugu ár verið með höfuðstöðvar sínar á Egilsstöðum við Landgræðslu ríkisins.

„Þær voru í tillögum hagræðingarhóps sem ég sit í en ég hef ekki fengið neina frekari kynningu á þessum hugmyndum. Það er sjálfsagt mál að skoða sameiginlega fleti en það verður að vera ávinningur af sameiningum stofnana, sérstaklega fyrir landsbyggðina, en ekki ekki sameina þær af því bara."

Þá fékk Vigdís einnig kynningu á markaðssetningu Egilsstaðaflugvallar. „Ég tel að völlurinn geti gegnt mjög stóru hlutverki í framtíðinni til að þið Austfirðingar fáið eitthvað af þessu ferðamannamagni og hægt verði að dreifa álaginu.

Mögulega eru einhverjir sem vilja bara sjá það sem er austan lands og þá er hentugra að byrja ferðina hér en í Keflavík og fyrir þá sem koma lengra að að fljúga heldur en taka Norrænu."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.