Orkumálinn 2024

Sakaði lögreglumann um að senda unglingsstelpum kynferðisleg skilaboð og leggja íbúa í einelti

heradsdomur austurlands hamar 0010 webÍbúi á Eskifirði er ákærður fyrir meiðyrði gagnvart lögregluþjóni í bænum sem hann segir hafa lagt ákveðna einstaklinga í einelti og sent unglingsstúlkum kynferðisleg skilaboð. Sakborningur lagði sig fram um að færa sönnur á fullyrðingar sínar í dómssal í gær.

Aðalmeðferð málsins fór þá fram í Héraðsdómi Austurlands. Forsaga þess er sú að Emil K. Thorarensen ritaði opna Facebook-færslu þann 15. maí árið 2013, sem Emil sjálfur segir hafa verið opið bréf til Inger L. Jónsdóttur, þáverandi sýslumanns á Eskifirði.

Í færslunni sakaði Emil lögreglumanninn Þór Þórðarson meðal annars um að hafa lagt sig og son sinn í einelti, auk þess sem hann hélt því fram að Þór hefði sent „táningum og unglingsstelpum kynferðisleg skilaboð og jafnframt boðið þeim upp á „afslátt“ gegn ???, ” eins og sagði orðrétt í Facebook-færslunni.

Facebook-færsla Emils var opin og aðgengileg öllum og segist hann hafa litið á hana sem opið bréf. Eitthvað virðist Emil þó leggja öfugan skilning í það hvað felst í opnum bréfum, því hann sagði einnig að færslan hafi eingöngu verið ætluð honum og vinum hans á samfélagsmiðlinum. Hann viðurkenndi þó að vera ekki sá snjallasti í tölvumálum.

Segir illar hvatir liggja að baki eineltistilburðum Þórs

Emil var beðinn um að lýsa meintu einelti Þórs á hendur sér og syni sínum. Hann sagði það hafa falist í óeðlilegum afskiptum af ýmsu tagi og sagði illar hvatir búa að baki tilburðum hans.

Hann sagði Þór hafa stöðvað sig ítrekað á ökutæki sínu. „Ef ég var að fara inn á Reyðarfjörð og við mættumst, þá liðu sjaldan meira en tvær, þrjár mínútur þangað til löggubíllinn var kominn á eftir mér með blikkandi ljósin.“

Emil sagði að hann hefði verið stoppaður að tilefnislausu í sex eða sjö skipti á stuttu tímabili áður en hann fann sig knúinn til að rita Facebook-færsluna, sem málið snýst um.

Emil sagði Þór einnig hafa stundað það að leggja lögreglubifreið sinni við hliðina á bíl Emils. „Ef hann var að fara í ræktina þá lagði hann bílnum sínum við hliðina á mínum bíl, þó tugir auðra stæða væru á svæðinu,“ sagði Emil .

„Hættu þessu!“

Þá sagði Emil að Þór hefði ítrekað keyrt framhjá húsi Emils á Eskifirði og horft inn um eldhúsgluggann hjá sér. Emil vildi meina að um tugi skipta væri að ræða og sérstaklega hafi borið á ferðunum eftir að færslan birtist.

Verjandi Emils, Gísli M. Auðbergsson, ítrekaði spurningar sínar um hvort Þór hefði mögulega einhvern tíman keyrt um Fífubarðið og horft inn um gluggann hjá Emil. Því svaraði Þór einfaldlega: „Gísli - hættu þessu!“

Aðspurður hafnaði Þór því að hann hefði verið beðinn um að hafa ekki afskipti af Emil en innan lögreglunnar á Eskifirði hefði verið talað um að gefa honum ekki höggstað á sér.

Þór sagði að Emil hefði engar ástæður til að ætla að hann væri undir sérstöku eftirliti en „því miður“ væri staðan sú að lögreglunni bærust ábendingar þegar Emil væri á ferðinni á bíl sínum.

Óþægilegar augngotur á golfvellinum

Emil vill einnig meina að Þór hafi einnig lagt son hans í einelti. Sonur Emils og alnafni, Emil Thorarensen, staðfesti fyrir dómi í gær að sú væri upplifun hans.

Hann sagði Þór hafa handtekið hann og tvo aðra félaga hans að ástæðulausu árið 2009 eða 2010. Emil sagðist muna óljóst eftir þessu, en honum hefði þó verið varpað í fangaklefa á Eskifirði án þess að hafa brotið af sér.

Allt frá því atviki hafi honum liðið eins og Þór væri að fylgjast sérstaklega með sér. Emil yngri segir Þór ítrekað hafa horft á sig og veitt honum „óþægilegar augngotur.“ Hinar meintu augngotur hafi átt sér víða stað, meðal annars á golfvellinum.

Þá hafi Emil yngri mætt Þór fyrir utan pósthúsið á Eskifirði eitt sinn. Þór hafi þá spurt Emil að því hvort hann hefði verið að „senda dóp“ með póstinum.

Sögur að vestan

Í Facebook-færslunni vitnaði Emil í orð tveggja manna af Vestfjörðum en Þór starfaði sem lögregluþjónn á Patreksfirði þar til hann fluttist til Eskifjarðar árið 2007. Að sögn Emils báru þeir Þór ekki söguna vel þaðan, hvorki í starfi né einkalífi.

Hvorugur Vestfirðingurinn vildi koma fyrir dóm og staðfesta sögu sína. Sakborningur segir það stafa af ótta við lögregluna og segir að það sem hann hafi eftir þeim sé sannleikurinn einn. Hann standi við allt sem hann skrifaði en hafi fjarlægt færsluna að beiðni annars mannsins sem er venslaður við lögregluþjóninn.

Annað vitni mætti hins vegar að beiðni verjanda en var aðeins boðaðað í dómssal daginn fyrir aðalmeðferð og flogið austur með morgunvélinni. Vitnið hafði búið á Eskifirði og Reyðarfirði en tók fram að það myndi ekki nákvæmlega hvaða ár. Það kvartaði undan meðferð Þórs. 

Vitnið viðurkenndi að hafa verið í afbrotum og „kannski ekki heiðarlegasti maður í heimi á þeim tíma“ en hins vegar sætt afskiptum lögregluþjónsins langt umfram það sem eðlilegt gæti talist.

Óviðeigandi kynferðisleg samskipti

Eins og áður segir fjallar einn ákæruliður málsins um ummæli sem Emil setur fram um meint óviðeigandi kynferðisleg samskipti Þórs við „táninga og unglingsstúlkur.“

Emil sagðist hafa heyrt sögur um þetta meinta athæfi Þórs frá að minnsta kosti einum millilið. Í ljós kom að sá aðili var Emil yngri. Hann sagði í vitnisburði sínum í gær að vinkona sín hefði sagt sér að Þór hefði reynt að kyssa hana inni í fangaklefa. Í framhaldi af því hefði hann sent henni skilaboð og reynt við hana.

Töluvert fát kom á Emil er hann var beðinn um að útskýra nánar hvað hann átt við með skrifum sínum um samskipti Þórs við táninga og unglingsstúlkur. Hann dró til að mynda í land með að hann hefði átt við táninga og unglingsstúlkur, samkvæmt orðabókarskilgreiningum þeirra orða.

Spurður að því á hvaða aldri umræddir kvenmenn, sem hann hafði heyrt sögur um að Þór væri að í sambandi við sagði Emil: „Ég er nú að verða rúmlega sextugur en þær eru allar ungar og fallegar þessar konur sem eru undir þrítugt.“

Áminntur um að vera ábyrgur orða sinna

Emil sagðist annars bara hafa byggt skrif sín á sögum sem hann hefði heyrt. Verjandi ákærða, Gísli M. Auðbergsson, reyndi að fá nánar upp úr Emil hvaða sögur þetta væru nákvæmlega.

Á þeim tímapunkti bað dómari verjanda um að hugsa sig um hvort hann vildi hvetja ákærða til þess að vera að rifja upp sögur sem fælu í sér alvarleg ummæli gagnvart brotaþola og minnti á að menn þurfi að vera ábyrgir fyrir þeim orðum sem þeir láta falla, sérstaklega í opnu þinghaldi.

Áður en vitnisburði Emils lauk vildi hann fá að koma því að, að honum þætti fáránlegt að ríkissaksóknari væri að skipta sér af svona „smámáli.“ „Hvað ætli þetta sé búið að kosta samfélagið?,“ sagði Emil áður en hann steig úr vitnastúku.

Tengd frétt: Lögregluþjónninn: Hefur reynt mjög á fjölskyldulíf okkar.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.