Fréttaskýring: Færri, stærri, sterkari, ódýrari?

neskRáðgjafasvið KPMG leggur til að farin verði blönduð leið sölu eigna og hagræðingar hjá Fjarðabyggð til að létta skuldsetningu A-hluta sveitarsjóðs. Afborganir af lánum nema þar að meðaltali 600 milljónum króna á næstu árum.

Þetta kemur fram í samantekt KPMG undir yfirskriftinni „Fjarðabyggð til framtíðar" en bæjarstjórn óskaði eftir úttektinni við gerð fjárhagsáætlunar í nóvember síðastliðnum. Niðurstöðurnar voru opinberaðar í síðustu viku og verða kynntar á íbúafundum á Reyðarfirði og í Neskaupstað í kvöld.

KPMG hóf vinnuna í upphafi árs og hélt íbúafundi í öllum byggðakjörnum Fjarðabyggðar. Áætlað er að um 220 íbúar hafi sótt þá.

Tap á A-hluta

Athyglin beinist að A-hluta sveitasjóðs, sem nær yfir aðalsjóð, eignasjóð og eignahaldsfélagið Hraun en þar varð 72 milljóna króna tap í fyrra. Þá eru skuldir A-hlutans vel yfir 150% mörkum sveitarfélaga, sem hlutfall skulda af reglulegum tekjum og útlit fyrir að það verði fast í 170% næstu árum verði ekkert að gert.

Í skýrslunni segir að þrátt fyrir að Fjarðabyggð sé „að mörgu leytið vel rekið sveitarfélag" standi framlegð frá A-hluta ekki undir skuldsetningunni. Stærstur hluti hennar fari í greiðslur vaxta og afborgana sem eru að jafnaði 600 milljónir á ári.

Skuldirnar eru að mestu tilkomnar eftir mikla uppbyggingu í samhliða stóriðjuframkvæmdum sem fjármagnaðar voru með lánum. Þau margfölduðust í hruninu.

Afborganirnar eru reyndar töluvert hærri á næsta ári þegar borga á 800 milljóna eingreiðslu en í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að henni verði mætt með 725 milljóna lántöku.

Leggja til blandaða leið

Í skýrslu KPMG er gerð grein fyrir tveimur leiðum, annars vegar leið A sem felur í sér 290 milljóna sparnað í rekstri sem muni koma niður á þjónustu. Í leið B er blandað saman eignasölu og hagræðingu upp á 150 milljónir króna og leggur KPMG til að sú leið verði farin. Með þessu verði skuldir A-hlutans komnar undir 150% mörkin árið 2017.

Grunnstefin í skýrslunni ganga út á að greiða niður höfuðstól lána til að lækka afborganir, mynda færri, sterkari og öflugri rekstrareiningar, selja eignir sem sveitarfélagið þurfi ekki nauðsynlega á að halda, fresta framkvæmdum eins og kostur er á meðan hagræðingu stendur og efla arðsemi þeirra eigna sem tilheyra B-hlutanum og nýta hana til að greiða enn frekar niður lán. Undir hann falla veitustofnanir sveitarfélagsins, hafnarsjóður, sorpstöð og félagslegar íbúðir.

Um helmingur útgjalda sveitarfélagsins fer til fræðslumála og laun eru stærsti kostnaðarliðurinn í bókhaldinu. Fram kemur að þau séu hærri í æskulýðs- og íþróttamálum, fræðslu – og uppeldismálum, brunamálum, umhverfismálum, umferðar- og samgöngumálum og skipulags- og byggingarmálum heldur en í samanburðar sveitarfélögum á borð við Fljótsdalshérað, Akranes og Ísafjörð.

Lítið svigrúm virðist í A-hlutanum til tekjuöflunar, nema smávægilegrar hækkunar á fasteignaskatti og því ljóst að sparnaðinum verður að ná fram með lækkun á rekstrarkostnaði.

Sameining skóla táknræn aðgerð fyrir sameiningu sveitarfélagsins

Talið er að spara megi um 94-160 milljónir í fræðslumálum, þar af um 35-40 milljónir með aukinni samkennslu milli árganga sem þegar hefur verið samþykkt. Þá er talið að 70 milljóna sparnaður gæti fengist með að leggja niður Stöðvarfjarðarskóla.

Sameining skóla er sögð „grunnþáttur fyrir framþróun skólamálum Fjarðabyggðar og ekki síður sem táknræn aðgerð fyrir sameiningu sveitarfélagsins." Áætlað er að 13 milljónir megi stíga í fyrsta skrefinu með að sameina alla grunnskólana í eina stofnun og kanna síðan sambærilega sameiningu leik- og tónlistarskóla.

Viðraðar eru hugmyndir um að samnýta aðstöðu í grunnskólanum á Reyðarfirði með leikskólanum og flytja elstu deildirnar á Fáskrúðsfjörð sem spari byggingakostnað síðar meir. Eins er bent á að með að sinna húsvörslu frá þjónustumiðstöð megi spara 12 milljónir.

Félagsheimili og félagsmiðstöðvar seldar?

Í æskulýðs- og íþróttamálum er velt upp möguleikum á að fækka félagsmiðstöðvunum úr fimm í tvær, sem skilað gæti 15 milljóna sparnaði, tíu milljónir gætu fengist með að breyta opnunartíma sundlauga og 23-47 milljónir með tímabundinni lokun skíðasvæðisins í Oddsskarði þar sem framundan eru „veruleg útgjöld" við endurnýjun búnaðar og tækja.

Félagsheimilin eru sérstaklega skoðuð í úttektinni en hagræðingu upp á 10-15 milljónir er talið mega ná með að flytja félagsmiðstöðvarnar inn í félagsheimilin Egilsbúð og Valhöll en selja núverandi húsnæði félagsmiðstöðva. Þá telur KPMG að 27 milljónir megi fá með að selja félagsheimili „sem aðallega skapi rekstrarkostnað."

Fleiri fasteignir eru taldar upp í tengslum við eignasölu en eignasjóður er sagður hafa á sínu forræði „fjölda eigna sem sumar hverjar tengjast ekki starfsemi sveitarfélagsins, eru ekki nýttar undir neina starsemi að ráði en skapa sveitarfélaginu kostnað vegna viðhalds, trygginga og fleira."

Sameinaðar þjónustumiðstöðvar

Um 30-35 milljónir er talið mega spara með að sameina starfsemi þjónustumiðstöðva, Veitustofnunar og Fjarðabyggðarhafna í 1-2 miðlægar stöðvar og tíu milljónir í viðbót með að stjórnun stöðvanna í eina. Hvatt er til þess að rekstur slökkviliðsins verðu rýndur og meðal annars skoðað hvort útvista megi rekstri þess eða fela því aukin verkefni án þess að skerða útkallsöryggi.

Að auki er talið að lækka megi yfirvinnukostnað upp á 20-40 milljónir og fækkun stöðugilda hjá sveitarfélaginu um 5-10 myndi spara 25-40 milljónir.

Rafveita og Hitaveita seldar?

Blandaða leiðin byggir á sölu eigna upp á 600 milljónir króna í ár sem nýtist til að greiða niður lánin. KPMG leggur til að Rafveita Reyðarfjarðar verði seld enda sé Fjarðabyggð eitt fárra sveitarfélaga sem enn reki rafveitu.

Eins er lagt til að skoðað verði að Hitaveita Fjarðabyggðar verði seld, að hluta eða í heild og ef hún verði ekki seld þá verði gjaldskrá hennar og annarra veita skoðaðar með langtíma fjárfestingaþörf í huga og leyfilega arðsemi. Framkvæmdir þeirra verði frekar fjármagnaðar með eigin tekjum og gjaldskrárhækkunum en lántökum.

Hvatt er til þess að öllu fjárfestingum sem ekki séu nauðsynlegar verði frestað meðan jafnvægi er náð í rekstrinum. Sérstaklega er minnst á að ekki verði farið í hafnarframkvæmdir fyrir olíuleit fyrr en ljóst sé um nýtingu mannvirkja, til dæmis með undirrituðu samkomulagi. Framkvæmdum við skóla og íþróttasvæði verði eins frestað eða skoðaðar sveigjanlegri lausnir svo sem færanlegar kennslustofur.

Hvernig má ná arði úr hafnarsjóði?

En þrátt fyrir tapið í A-hlutanum í fyrra skilaði sveitarfélagið hagnaði upp á 360 milljónir og skuldir samstæðunnar verða komnar undir 150% viðmiðið í ár. Hafnasjóðurinn stendur nefnilega afar vel en sveitarfélagið má ekki nýta hagnaðinn frá honum að vild. KPMG hvetur sveitarfélagið til að beita sér fyrir hafnalögum sem geri hafnarsjóðum kleift að greiða arð.

Í skýrslu KPMG er sérstaklega komið inn á að þrátt fyrir sveitarfélagið hafi verið sameinað virki það enn sundurleitt. Þetta hafi birst bæði í samtölum við stjórnendur og á íbúafundunum.

„Margt hefur verið vel gert frá sameiningu en þó blasir við að sveitarfélagið er í dag ekki að fullu sameinað í hugum íbúa og má segja að rekstur Fjarðabyggðar beri þess merki," segir þar orðrétt.

Hvatt er til þess að „ákvarðanir og áherslur snúist um að gæta hagsmuna heildarinnar fremur en einstakra byggðarkjarna." Sameiginleg framtíðarsýn sé lykilatriði þegar byggja eigi upp „öflugt samfélag sem er meira en bandalag sex ólíkra byggðarkjarna,."

Bættar almenningssamgöngur skipti þar sköpum og leggur KPMG að sem fyrst verði kannað meðal íbúa hvernig þeir geti best nýtt sér þær.

Bæjarstjórn hefur vísað skýrslunni til umfjöllunar í nefndum sveitarfélagsins sem skili tillögum til bæjarráðs sem taki þær saman og leggi fyrir bæjarstjórn. Gert er ráð fyrir að það verði í maí eða júní.

Skýrsla KPMG og skýrsla Skólastofunnar um skólamál í Fjarðabyggð verða nánar kynntar á opnum fundum í dag, klukkan 17:30 í Nesskóla og 20:30 í grunnskólanum á Reyðarfirði. Skýrslurnar um heild sinni og nánari upplýsingar um fundina má finna á vef Fjarðabyggðar.




Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.