Nettó opnar ekki á Seyðisfirði: Okkur finnst þetta fáránlegt!

samkaup strax seydisfjordur 1Það hefur vart farið fram hjá lesendum Austurfréttar að íbúar Seyðisfjarðar hafa á undanförnum misserum kannað möguleikann á því að fá opnaða Nettóverslun í stað Samkaupa Strax sem nú er í bæjarfélaginu.

Seyðfirðingar skoruðu á eigendur Samkaupa að breyta verslun staðarins þar sem bæjarbúar eru langþreyttir á að keyra á Egilsstaði til að kaupa í matinn og vilja versla í heimabyggð.

Framkvæmdastjórn Samkaupa fékk áskorunina í hendur og svöruðu svo Seyðfirðingum stuttu síðar á þann veg að þeir treystu sér ekki til að reka Nettó á Seyðisfirði, en þeir væru til í samræður um hvernig hægt væri að gera betur með núverandi verslun.

Flestum finnst þetta fáránlegt

En hver voru viðbrögð Seyðfirðinga við svari framkvæmdastjórnar Samkaupa? „Langflestum finnst þetta fáránlegt. En fólk átti kannski ekki von á að þetta gengi upp, ég hreinlega veit það ekki. En persónulega varð ég fyrir miklum vonbrigðum með að svona fór. Mér finnst við hafa skotheld rök,“ segir Þórunn Eymundardóttir, forsprakki hópsins „Við viljum versla í heimabyggð“ í samtali við Austurfrétt.

Hver er þá staðan núna? „Staðan er bara þannig að mér og Ómari Valdimarssyni, framkvæmdastjóra Samkaupa gengur bara rosalega illa að ná saman til að ræða þetta allt saman og komast að því hvaða flötur er á þessu máli. Ég næ vonandi á hann í dag.“

Skiptir ekki máli hvaða  verslun

Heyrst hefur að Seyðfirðingar séu tilbúnir ef þetta gengur ekki eftir að leita til Bónus um að opna verslun í bæjarfélaginu eða jafnvel að þeir opni sína eigin verslun sjálfir. Er eitthvað til í þessu? „Þetta er bara það sem hefur verið velt upp í umræðunni um hvaða möguleika við höfum í stöðunni, en ekkert meira en það. Við ætlum að halda áfram samtalinu við Samkaupsmenn eitthvað lengur og klára þann vinkil. Þegar þeim samræðum er lokið tökum við mið að niðurstöðunni og ákveðum hvað við gerum næst. En okkur er í raun alveg sama hvaða búð þetta verður, en við viljum bara ekki borga svona mikið fyrir matinn,“ segir Þórunn að lokum.

Sjá Líka:
Treystum okkur ekki að reka Nettó á Seyðisfirði
Seyðfirðingar skora á Samkaup að breyta verslun staðarins í lágvöruverðsverslun: Erum þreytt á að keyra í Egilsstaði til að kaupa í matinn

Mynd: visitseydisfjordur.com

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.