Orkumálinn 2024

Byggir tíu ný herbergi við gistiheimilið á Skjöldólfsstöðum

Adalsteinn jonsson ahreindyraslodumAðalsteinn Jónsson stendur í stórræðum um þessar mundir, en fyrir skemmstu hófst hann handa við framkvæmdir á Skjöldólfsstöðum þar sem hann hyggst stækka við gistiheimilið Á hreindýraslóðum og auka gistipláss.

„Ég er að bæta við tíu tveggja manna herbergjum með salernis- og baðaðstöðu. Átta hefðbundin og tvö fyrir fatlaða. Gistingin sem ég býð upp á núna er í gömlu heimavistarhúsnæði og er eitt sameiginlegt bað fyrir öll herbergin. Með þessum framkvæmdum er ég því að bæta þjónustuna svo um munar,“ segir Aðalsteinn, eða Alli eins og hann er alltaf kallaður í samtali við Austurfrétt

Auknir möguleikar

Á síðasta ári fluttu Alli og kona hans, Ólafía Sigmarsdóttir, í Skjöldólfsstaði þegar Marteinn Óli sonur þeirra tók við búinu í Klausturseli þar sem þau höfðu verið bændur um langt skeið. „Þegar við fluttum í íbúðina hérna misstum við fjögur gistirými svo ég var kominn í hálfgerða klemmu. Auk þess sem að það stendur mönnum oft fyrir þrifum að ég hafi ekki betri herbergi fannst mér þetta orðið tímabært.

Ég sé líka aukna möguleika í þessu. Það væri til dæmis ekkert því til fyrirstöðu að taka litla hópa yfir veturinn í gistingu og mat. Ég reikna líka með að sundlaugin og potturinn verði áfram, sem gerir þetta að ákjósanlegum stað fyrir árshátíðir, ættarmót og fleira. En þegar framkvæmdum lýkur get ég boðið upp á gistingu fyrir fjörutíu manns á meðan matsalurinn rúmar alveg um níutíu manns.“

Verklok áætluð í júní

Er alltaf nóg að gera? „Það er alltaf mest í júlí og ágúst, þá er háannatími hjá okkur. En við höfum fundið fyrir aukningu í ferðamannastraumnum eins og aðrir og það er alltaf eitthvað að gera allan ársins hring. Það er að detta inn hér fólk flesta daga. Einhverjir í kaffi og einhverjir í gistingu, það er að segja ef ekkert er að veðri og færð. Við erum líka svo heppilega staðsett við þjóðveg eitt svo það er þægilegt að droppa hér inn ef fólk er á ferðinni.“

Hvenær er stefnt að því að framkvæmdum ljúki? „Framkvæmdin er nýhafin. Það er einungis búið að grafa grunninn að nýju byggingunni, en stefnan er að allt verði tilbúið um mánaðarmótin júní, júlí.

Ertu farinn að taka bókanir fyrir sumarið? „Ég er ekki farinn að auglýsa nýju herbergin ennþá. Ég einfaldlega þorði ekki að selja þau fyrirfram fyrr en ég var kominn með samning fyrir framkvæmdunum. En nú er hann í höfn svo næst á dagskrá er setja þetta inn á booking.com og ferðaskrifstofurnar og keyra þetta í gang,“ segir Alli að lokum.

Mynd: Hér stendur Alli í grunninum sem nýja húsið mun rísa á. Mynd: Að.Sig

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.