Yrði sjónarsviptir ef við misstum alla staðbundnu fjölmiðlana

AusturfrettFulltrúar í bæjarstjórn Fjarðabyggðar telja mikilvægt að styðja við staðbundna fjölmiðlun á Austurlandi. Þeir telja mikilvægt að ræða málið á sameiginlegum vettvangi austfirskra sveitarstjórna.

„Við höfum reynt að styðja við útgáfu Austurgluggans enda er eins mikill akkur fyrir okkur og aðra að hér sé öflugt héraðsfréttablað.

Menn geta svo haft sínar meiningar um hvort hann er ópólitískur eða ekki. Það er allt önnur umræða," sagði Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar í umræðum um héraðsfréttamiðla á síðasta fundi bæjarstjórnar.

Tilefni umræðunnar var bréf markaðsstjóra Austurfréttar og Austurgluggans til Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs um hvert sveitarfélögin beindu auglýsingakaupum sínum.

Málshefjandi var Einar Már Sigurðsson, Fjarðalistanum sem viðurkenndi að hann væri ekki hlutlaus þar sem hann hefði komið að stofnun Austurgluggans á sínum tíma.

„Þegar það blasti við að það yrðu engin blöð tóku hin pólitísku öfl, sem áður gáfu út flokksblöð, höndum saman um að koma út héraðsfréttablaði. Sveitarfélögin fóru í það líka ásamt ákveðnum fyrirtækjum.

Upphafið sést enn því sumar auglýsingarnar eru ekki til að trekkja að heldur til stuðnings. Sveitarfélögin hafa síðan heldur dregið úr en eins og fram kemur í bréfinu þá hefur Fjarðabyggð staðið sig hvað best.

Þetta er samt auðvitað hlutur sem við verðum að velta fyrir okkur, hvort við viljum ekki frekar ýta undir útgáfu Austurgluggans."

Einar Már lýsti einnig þeirri skoðun sinni að auglýsingar í vikublaðinu væru lesnar öðrum augum heldur en í hreinum auglýsingamiðlum.

„Þetta snýst ekki bara um hausatalningar. Austurglugginn liggur víða frammi þannig að áskriftin segir ekki allt. Fyrst og fremst þurfum við að velta fyrir okkur hvort við viljum að gefið sé út héraðsfréttablað.

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar, tók undir margt í máli Einars en sagðist vilja sjá Austurglugganum breytt í fríblað.

„Það er þessi skoðun að tryggja að auglýsingar nái augum sem flestra og það er alltaf þrengri stakkur sniðinn í áskriftarmiðli," sagði Jón Björn og velti upp þeirri hugmynd hvort hægt væri að breyta blaðinu í fríblað gegn því að sveitarfélögin kæmu þar inn með auglýsingar. Það mætti gjarnan ræða á sameiginlegum vettvangi austfirskra sveitastjórna.

Nauðsynlegt sé að blaðið sé til staðar. „Ég held að það yrði sjónarsviptir ef við misstum alla staðbundna miðla. Landsmiðlarnir mega alveg sýna okkur aðeins meiri áhuga en þeir gera."

Eins sé nauðsynlegt að stunduð sé blaðamennska. „Við höfum séð fjölmiðil eins og blaðið Austurlandið sem er í frídreifingu en gert út að sunnan og byggt á fréttatilkynningum. Það skortir á fréttamennskuna og virðist skorta á að það sé lesið."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.