Eldgosinu lýkur í fyrsta lagi í byrjun sumars: Áhyggjur af söfnun mengunar í snjó

eldgos flug 0066 webEldgosið í Holuhrauni gæti staðið í meira en ár í viðbót. Sérfræðingar fylgjast nú betur með uppsöfnun gosefna í snjó í nágrenni eldstöðvanna sem haft gætu áhrif á umhverfið þegar snjóa leysir í vor.

Þetta kom fram í máli Andra Stefánssonar prófessors í jarðefnafræði við Háskóla Íslands á íbúafundi á Reyðarfirði í dag.

Töluverð umræða hefur verið um áhrif brennisteinstvíoxíðs frá eldgosinu og áhrif þess á fólk, einkum við innöndum. Á fundinum viðurkenndi Andri að nú væru menn farnir að fylgjast meira með umbreytingu brennisteinsgassins í súrt regn eða brennisteinssýru við snertingu við raka.

„Þessu rignir niður sem úrkoma og getur valdið heilmiklum áhrifum á umhverfi okkar, gróðurfar og lífríki."

Í dag eru gosefni í úrkomu skoðuð daglega á 22 mælistöðvum um allt land. Í ljós hefur komið að yfir 40% regnvatns á landsvísu eru menguð vegna eldgossins. Í þeim er bæði brennisteinn og flúor.

„Menn eru náttúrulega áhyggjufullir en við höfum enn tíma til að átta okkur."

Gosefnin, svo sem brennisteinsdíoxíð, flúor og þungmálmar, hafa aðallega safnast upp í nágrenni gosstöðvanna í snjó. Þau geta síðan borist út í ár og læki þegar snjóa leysir.

„Menn eru að átta sig á því núna að uppsöfnuð gosmengun í snjónum á hálendi Íslands er orðin veruleg."

Frekari rannsóknir eru fyrirhugaðar í febrúar og mars til að spá fyrir um magn efna sem borist geta með straumvötnunum í vor. Andri benti á að fylgst væri með vatnasviðum víða um land en vatnasvið við litla basavirkni, eins og á Austurlandi, væru viðkvæmari fyrir efnapúlsum.

Hann benti á að menn horfðu til Skandinavíu þar sem súrt regn hefði meðal annars valdið fiskidauða. „Við erum ekki að spá fyrir um slíkt en menn hafa reynsluna á bakvið eyrað."

Eins hafa menn áhyggjur af áhrifum mengunarinnar á gróður þegar vorar. Í máli Andra kom fram að gosið klárist í fyrsta lagi snemmsumars.

„Gosið er enn stórt en það dregur úr því hægt og rólega. Í fyrsta lagi klárast það fyrri part sumars en það gæti líka staðið yfir í meira en ár í viðbót."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.