Tuttugu milljóna Evrópustyrkur til LungA skólans.

lunga euf dillRekstur LungA skólans á Seyðisfirði hefur verið tryggður næstu tvö árin eftir að verkefnið fékk tuttugu milljóna króna styrk úr æskulýðsáætlun Evrópusambandsins. Annar skólastjóra skólans segir styrkinn efla undirstöðurnar.

„Við erum mjög ánægð með þennan styrk," segir Jonathan Spjelberg Jensen, annar skólastjóra og stofnenda fyrsta íslenska lýðháskólans.

Það er Evrópa unga fólksins sem sér um úthlutun styrksins úr Erasmus+ sem er mennta-, æskulýðs- og íþróttaáætlun Evrópusambandsins. Árum saman hafa verið styrkt æskulýðsverkefni, svo sem ungmennaskipti sem LungA-hátíðin hefur nýtt sér en styrkurinn nú kemur úr flokki stefnumiðaðra samstarfsverkefna og er veglegri en áður.

„Við höfum sex sinnum fengið styrki til ungmennaskipta en þessi styrkur er trúlega jafn stór og hinir til samans," segir Jonathan.

Styrkurinn nú verður nýttur til frekari þróunar námskrár skólans. „Verkefnið okkar snýst um að tryggja undirstöður skólans, þróa námskrána og hvernig lýðháskólar virka á Íslandi.

Við höfum góða samstarfsaðila í Danmörku og Svíþjóð sem hafa ýmislegt framað færa. Styrkurinn gerir okkur kleift að tryggja reksturinn næstu tvö ár," segir Jonathan en styrkveitingin gildir til tveggja ára.

Hjörtur Ágústsson, kynningarfulltrúi Evrópu unga fólksins, segir þróun LungA á Seyðisfirði sýna hvaða áhrif æskulýðsstarf getur haft á mannlífið í litlum sveitarfélögum.

„Þetta snýst ekki bara um vikulangt ungmennaskiptaverkefni eða eitt verkefni heldur hvernig starfið þróast yfir lengri tíma.

LungA skólinn og hans alþjóðlega tenging með innflutningi á kennurunum, hugmyndum og nemendum er bein afleiðing af þeim Evrópuverkefnum sem LungA hátíðin hefur tekið þátt í."

Önnur önn LungA skólans er nú nýhafin og sækja skólann ellefu nemar frá fjórum löndum. Gert er ráð fyrir að þeir verði fleiri á þriðju önninni í haust.

Árið 2014 veitti Evrópa unga fólksins 198 milljónir króna í styrki til 47 verkefna úr Erasmus+ sem er mennta- æskulýðs- og íþróttaáætlun ESB. Næsti umsóknarfrestur um styrki hjá Evrópu unga fólksins er 4. febrúar.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.