Orkumálinn 2024

Mikill kvóti hverfur með Vísi: Himinn og haf skilur á milli þess sem verið hefur

gauti johannesson mai13Djúpavogshreppur leitar að öðru útgerðaraðila til að taka stöðu Vísis sem í morgun staðfesti að fiskvinnslu fyrirtækisins yrði hætt þar um áramót. Sveitarstjórinn bendir á að um leið hverfi mikill kvóti úr byggðarlaginu og kallar eftir því að þingmönum sé alvara með að nota fiskveiðistjórnunarkerfið til að halda landinu í byggð.

„Vísir lýsti því yfir í vor að þeir myndu halda hér uppi vinnslu í allt að ár svo þetta var á vissan hátt fyrirsjáanlegt þó ég hefði kosið að þeir yrðu hér lengur," segir Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps.

„Tímasetningin er bagaleg að því leyti að erfitt getur reynst að fá aðra útgerðaraðila á staðinn þegar svo langt er liðið á yfirstandandi fiskveiðiár. Það er hins vegar verið að vinna að því og þar til annað kemur í ljós er ég bjartsýnn á að það takist."

Í morgun var staðfest að Vísir hygðist hætta fiskvinnslu á Djúpavogi. Upphaflega stóð til að gera það í lok sumars en þeim áformum var breytt og fyrirheit gefin um að áfram yrði haldið fram á næsta ár en dregið úr umsvifum.

Samkvæmt tilkynningu Vísis frá í morgun verða áfram 30 störf tryggð í fiskvinnslu á svæðinu sem verður undir merkjum Búlandstinds með stuðningi Fiskeldis Austfjarða.

Gauti bendir á að miklar aflaheimildir hverfi úr byggðarlaginu með Vísi. „Með brotthvarfi Vísis frá Djúpavogi fara rúmlega 3000 tonn af aflaheimildum á þessu ári. Árlega hafa verið unnin hér um 4000 tonn.

Mótvægisaðgerðir sem ríkið hefur boðið eru 400 tonna aflamark í gegnum Byggðastofnun og 188 tonn af hefðbundnum byggðakvóta þannig að þarna skilur himinn og haf á milli þess sem verið hefur.

Það sér hver maður að þetta er hvergi nærri nóg og það að okkur skuli ekki einu sinni úthlutaður fullur byggðakvóti undirstrikar meinbugina sem eru á kerfinu eins og það er í dag"

Gauti skorar á þingmenn að gera breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu þannig það boðuðum markmiðum um að tryggja byggð um allt land.

„Þessa dagana er unnið að endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu og í því sambandi hafa verið viðraðar hugmyndir um að festa aflaheimildir við ákveðinn atvinnusvæði eða byggðarlög. Þær hugmyndir eru allrar athygli verðar.

Hvaða leiðir sem verða fyrir valinu þá er brýnt að löggjafinn spýti í lófana og geri þær breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem þarf til að tryggja festu í útgerð, fiskvinnslu og búsetu í minni bæjarfélögum um landið sé mönnum alvara með því að halda landinu í byggð – ef það er ekki markmiðið þá verða menn að hafa pólitískan dug til að segja það."

Gauti ítrekar að þrátt fyrir brotthvarf Vísis sé hann bjartsýnn á framtíð Djúpavogs. „Djúpivogur hefur fram til þessa verið sveitarfélag í sókn, hér hefur íbúum fjölgað undanfarin ár, hér er hæsta hlutfall barna á leikskólaaldri í landinu, skuldastaðan hefur farið batnandi og atvinnulíf hefur verið með ágætum."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.