Jens Garðar býður sig fram til formanns nýrra landssamtaka í sjávarútvegi

jens gardar stfj mai14Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar, hefur tilkynnt að hann bjóði sig fram til formanns á sameiginlegum aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna og Samtaka fiskvinnslustöðva sem haldinn verður í lok mánaðarins. Fyrir fundinum liggur tillaga um sameiningu samtakanna.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem send var út á vegum LÍÚ í dag. Adolf Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gullbergs á Seyðisfirði, tilkynnti í síðasta mánuði að hann hygðist hætta sem formaður LÍU á fundinum. Arnar Sigmundsson úr Vestmannaeyjum er formaður SF.

„Íslenskur sjávarútvegur er nútímaleg, hátæknivædd atvinnugrein í harðri alþjóðlegri samkeppni. Það felast mikil tækifæri í því fyrir sjávarútveginn að sameina fyrirtæki sem starfa að veiðum, vinnslu, sölu- og markaðssetningu sjávarafurða í ein, öflug samtök," er haft eftir Jens í tilkynningunni.

„Við þurfum að horfa til framtíðar, greina sóknarfærin og vinna að eflingu og samkeppnisfærni sjávarútvegsins þjóðinni allri til hagsbóta. Ég vil bjóða fram mína krafta í því starfi sem framundan er og þá reynslu sem ég hef af sjávarútvegsrekstri."

Jens er fæddur og uppalinn á Eskifirði 1976, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri og stundaði nám í viðskiptafræði í Háskóla Íslands 1997 - 2000. Hann hóf störf hjá Fiskimiðum ehf. á Eskifirði, sem sérhæfir sig í útflutningi á fiskimjöli og lýsi, árið 1999.

Jens Garðar tók við starfi framkvæmdastjóra Fiskimiða árið 2001 og gegndi því fram á þetta ár. Hann á þrjú börn, Heklu Björk, Vögg og Thor. Sambýliskona hans er Kristín Lilja Eyglóardóttir, læknir í Gautaborg.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.