Hvalreki í Breiðdal: Virðist vera í andarslitrunum

burhveli bdalsvik hh 17102014Þrettán metra búrhval rak á land í fjörunni innan við Snæhvamm í Breiðdal í morgun. Það er með lífsmarki en líffræðingar telja það vera að drepast. Sjaldgæft er að lifandi búrhveli reki á land.

„Það er lífsmark með honum en Páll Leifsson, sérfræðingur sem er með okkur, segir tímaspursmál hvenær hann lognist út af," segir Skarphéðinn Þórisson, líffræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands.

Heimamenn tóku eftir hvalnum í gærkvöldi þar sem hann synti í hringi og virtist fremur áttavilltur. Skarphéðinn segir að áfram verði fylgst með hvalnum og tekin úr honum sýni eftir að hann gefur upp öndina.

Hvalurinn hefur blásið annað slagið frá sér og ekkert sést á honum nema að sporðurinn er hruflaður.

Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir 2-3 búrhveli reka á land á Íslandi árlega, miðað við skráningar stofnunarinnar. Hins vegar séu þeir nær alltaf dauðir eins og menn héldu fyrst í morgun í Breiðdal.

„Það er mjög sjaldgæft að þeir uppgötvist lifandi í fjöru. Ég man ekki eftir því með búrhval."

Miðað við stærðina telur Gísli að um sé að ræða dýr sem ekki er fullvaxið en „vel stálpað." Nær öruggt er að um karldýr sé að ræða en kvendýrin halda sig í stórum hjörðum í suðrænni höfum með fáa tarfa. Þeir sem verða útundan ráfa um norðurhöf í ætisleit og bíða færis.

Ekki er ljóst hvað varð til þess að búrhvalinn rak á land í morgun en þær kenningar sem til eru um hvalreka tegundarinnar snúast flestar um það þegar mörg dýr rekur á land í einu.

Búrhvalurinn er úthafsdýr og sú hvalategund sem kafað getur dýpst eða allt niður á tveggja kílómetra dýpi. Búrhvalir halda sig því gjarnan á miklu dýpi og nota þróaða bergmálstækni til að rata enda gengur ein kenningin út á að þeir afvegaleiðis gjarnan á grynningum.

Sex stofnanir hafa skyldum að gegna samkvæmt lögum þegar hvali rekur á land. Hlutverk Hafrannsóknastofnunar snýst fyrst og fremst um rannsókn en reynt verður að taka sýni úr hvalnum þegar hann er dauður.

Í verkahring Umhverfisstofnunar er að tryggja að hræinu sé fargað á réttan hátt. Ekki má nýta kjötið úr hvalreka en allt annað sem rekur á land telst eign landeiganda. Í þessu tilfelli eru verðmætin helst fólgin í tönnum skepnunnar. Kjósi landeigandi að nýta þann rétt færist á móti ábyrgðin af förgun skepnunnar á hann og er hún háð ýmsum skilyrðum.

Örlög dýrsins eru nú í höndum dýralæknis en embætti yfirdýralæknis tekur ákvörðun um aflífun. Þá metur dýralæknir hvort mögulegt sé að nýta kjötið af skepnunni.

Uppfært: Dýrið var dautt um klukkan 16:00 og tóku líffræðingar þá sýni úr því.

Mynd: Hákon Hansson

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.