Vilhjálmur Jónsson: Væntum þess að kaupin styrki atvinnulífið

vilhjalmur jons sfk mai14Vilhjálmur Jónsson, bæjarstjóri á Seyðisfirði, væntir þess að kaup Síldarvinnslunnar á útgerðinni Gullbergi og fiskvinnslufyrirtækinu Brimbergi efli atvinnulífið á staðnum. Hann telur það skipta máli að um fyrirtæki úr nágrannabyggð sé að ræða.

„Bæjarstjórnin hefur ekki fjallað um þetta í dýpt en sú kynning sem við fengum er þannig að við væntum þess að þetta verði jákvætt og styrki atvinnulífið á Seyðisfirði," segir Vilhjálmur.

„Í þessu geta falist tækifæri bæði fyrir samfélagið og fyrirtækið. Síldarvinnslan er öflugt sjávarútvegsfyrirtæki sem hefur verið að styrkja sig."

Bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar fundaði klukkan níu í morgun með forsvarsmönnum Síldarvinnslunnar og Gullbergs þar sem kynnt var að Síldarvinnslan hefði keypt allt hlutafé í útgerðinni og fiskvinnslunni.

Í tilkynningu sem bæjarstjórnin sendi frá sér eftir fundinn segir að hún vænti þess að með kaupunum og „innkomu eins af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins" muni starfsemin á Seyðisfirði „eflast til framtíðar litið." Á fundinum hafi komið fram að áfram yrði gert út frá Seyðisfirði og lögð áhersla á áframahaldandi framleiðslustörf í sjávarútvegi í byggðarlaginu.

„Eins og þetta var kynnt fyrir okkur þá verður starfsemin óbreytt og jafnvel reynt að bæta í vinnslu í húsinu," segir Vilhjálmur.

Krefjast ekki forkaupsréttar

Kaupin eru tilkynnt með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Síldarvinnslan hefur staðið í dómsmálum út af kaupum á Bergi/Huginn í Vestmannaeyjum en héraðsdómur komst í vor að þeirri niðurstöðu að Vestmannaeyjabær ætti forkaupsrétt að Bergi/Huginn.

Síldarvinnslan hefur áfrýjað því máli til hæstaréttar en bæjarstjórn Seyðisfjarðar ætlar ekki í málarekstur eins og Eyjamenn.

„Við sjáum ekkert tilefni til þess. Hér er aðili að koma inn, kaupir fyrirtæki og starfsemi og ætlar að vera með starfsemi áfram. Ég lít svo á að þetta séu gjörólík mál."

Mjóifjörður skilur Seyðisfjörð og Norðfjörð að. Vilhjálmur telur það skipta máli að fá fyrirtæki úr nágrannabyggð sem þekki aðstæður en Síldarvinnslan rekur fiskimjölsverksmiðju á Seyðisfirði.

„Ég held að nálægðin skapi meiri skilning á samspili samfélags og atvinnu. Síldarvinnslan stendur fyrir rekstri í byggðarlagi sem er ekki óáþekkt en heldur stærra."

Seyðfirðingar hafa um árabil barist fyrir göngum undir Fjarðarheiði og upp í Hérað, fremur en tvennum göngum í gegnum Mjóafjörð til Norðfjarðar. Aðspurður sagði Vilhjálmur kaupin „ekki breyta neinu varðandi göngin."

Þótt bæjarstjórninni hafi ekki verið tilkynnt formlega um kaupin fyrr en í morgun var búið að láta fulltrúa í henni vita hvað væri í aðsigi. Í samtali við Austurfrétt staðfesti Vilhjálmur að þeir hefðu fengið að vita að viðræður væru í gangi seinni partinn í ágúst.

„Ég huga að flestir bæjarfulltrúar hafi gert sér grein fyrir að það væru breytingar í pípunum. Í vor voru hugmyndir um að sameina fyrirtækin hér og þótt sögum um kaupin hafi verið hafnað í fréttum þá hugsa ég að bæjarfulltrúar hafi haft pata af þeim, frekar en vissu."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.