SMS send tæpri klukkustund eftir að háu gildin mældust: Verkferlar voru ekki til staðar

blaa modan 05092014 0010 webAlmannavarnir sendu farsímanotendum í Fjarðabyggð smáskilaboð með viðvörun vegna brennisteinsmengunar um klukkustund eftir að alltof há gildi mældust á svæðinu. Ekki tókst að senda skilaboðin í alla síma á svæðinu.

SMS voru send í síma á Fáskrúðsfirði, Eskifirði, Reyðarfirði og Norðfirði frá klukkan 23:05-23:15 í gærkvöldi á vegum almannavarna.

Um klukkan 21:20 í gærkvöldi var styrkur brennisteinsdíoxíðs (SO2) í andrúmlofti farinn að aukast verulega samkvæmt mælum í Reyðarfirði og kominn yfir 1000 μg/m3 og var greint frá því í viðvörun á Faceboook-síðu Umhverfisstofnunar.

Um tíu leitið var gildið komið í yfir 3000 μg/m3 en við þau mörk breytist aðstæður úr „varasömum" í „óhollar" samkvæmt skilgreiningum Umhverfisstofnunar.

Hápunktinum var náð klukkan 22:20 þegar magn brennisteins í andrúmslofti mældist 3946 μg/m3 á mæli á Kollaleiru, rétt innan við þorpið á Reyðarfirði. Toppurinn stóð stutt en mengunin barst út fjörðinn og klukkan 22:40 mældist hátt gildi á stöð á Hólmum.

Verkferlar ekki til

Fyrir klukkan ellefu voru mengunargildin komin niður fyrir öll hættumörk. Þá voru hins vegar loks send út tilkynning frá almannavörnum til íbúa um að halda sig innandyra í gegnum SMS.

„Ekki voru til verkferlar um hvernig bregðast eigi við tilkynningum frá Umhverfisstofnun sem sér um vöktun á loftgæðum.

Brugðist var við eftir aðstæðum og ákvarðanir teknar í ljósi alvarleika málsins," segir í svari við fyrirspurn Austurfréttar frá samhæfingarmiðstöð almannavarna í Skógarhlíð í Reykjavík.

„Nú liggja hins vegar fyrir skriflegir verkferlar um hvernig bregðast eigi við við þessar aðstæður."

Klikkaði kerfi NOVA?

Skilaboðin voru send á símtæki á Eskifirði, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði og Norðfirði. Þau bárust hins vegar ekki öllum.

„SMS kerfið er viðbót við aðra upplýsinga gjöf almannavarna. Ekki er treyst á SMS skilaboð sem alhliða viðvörunarkerfi. Í gærkvöldi kom í ljós að skilaboð bárust ekki eða illa í farsíma eins farsímafyrirtækisins."

Austurfrétt hefur rætt við viðskiptavini NOVA sem ekki fengu skilaboðin.

Íbúar fundu fyrir óþægindum í öndunarfærum

Þar sem ekki eru mælar annars staðar en á Reyðarfirði er óvíst hversu víðtæk mengunin var. Hjá samhæfingarmiðstöðinni fengust þær upplýsingar að rætt hefði verið íbúa sem fundið hefðu áhrifin á fjörðunum fjórum.

Íbúar þar hafa á samfélagsmiðlum lýst því að þeir hafi fundið fyrir óþægindum svo sem sviða í hálsi, nefi og augum.

Gildi mældust aftur um 2000 μg/m3 á milli klukkan 1 og 2 í nótt á mælunum í Reyðarfirði og duttu ekki niður fyrir 600 μg/m3, sem er lágmark stigsins sem telst „varasamt" fyrr en um klukkan sjö í morgun.

Annar mælir er á Egilsstöðum sem sýndi gildi í kringum 600 á milli klukkan fimm og sjö í morgun.

Frá klukkan átta hafa gildin verið undir öllum hættumörkum bæði á Egilsstöðum og Reyðarfirði.

Dreifingaspár Veðurstofunnar benda til að styrkur brennisteinsdíoxíðs geti orðið hár á norðanverðum Austfjörðum og á Héraði í dag og í Mývatnssveit á morgun. Ekki er útilokað að mengunarinnar gæti á stærra svæði.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.