Orkumálinn 2024

Bláa móðan: Fyrri eldgos geyma engin slík fordæmi

blaa modan 05092014 0013 webViðbragðsaðilar vinna að viðbrögðum vegna brennisteinsmengunar frá eldgosinu í Holuhrauni sem vart hefur orðið á Austfjörðum. Umhverfisstofnun skoðar hvort hægt sé að koma upp fleiri mælum á svæðinu og Veðurstofan vinnur veðurspár um hvert mengunin stefnir hverju sinni.

Viðbragðsaðilarnir bera því þó við í svörum sínum við fyrirspurnum Austurfréttar að ekki hafi verið hægt að sjá mengunina fyrir. Spurst var fyrir um hvort ekki hefði átt að grípa fyrr til aðgerða hjá almannavörnum, sóttvarnalækni og Umhverfisstofnun.

„Eldgos eru ófyrirséðir atburðir og alltaf ákveðin óvissa um afleiðingar. Brennisteinsdíoxíðmengun af þeim styrkleika sem við sjáum núna er í fyrsta sinn að mælast frá því mælingar hófust 1970. Fyrri eldgos geyma engin slík fordæmi," segir Guðfinnur Sigurvinsson, upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar.

„Allt það sem hægt er er gert til að kortleggja vandann en fólk á staðnum þarf einnig að treysta á eigin skynfæri og koma sér inn finni það fyrir óþægindum," segir Guðfinnur.

Umhverfisstofnun hefur umsjón með mælunum en til staðar eru mælar í Reyðarfirði sem tengjast álverinu auk þess sem það lánaði mæli sem komið hefur verið fyrir á Egilsstöðum.

Mengunin hefur samt dreifst um allt Austurland, frá Breiðdal til Vopnafjarðar. Unnið er að því að koma upp mæli á Akureyri og segir Guðfinnur að skoðað sé að fá hreyfanlega mæla til að setja niður á fleiri stöðum. Þeim þarf hins vegar að fylgja starfsmaður þannig að ekki verður hægt að vakta þá allan sólarhringinn.

Ábyrgðin af því að vinna gegn áhrifum mengunarinnar á almenning er í höndum sóttvarnalæknis en hann er hluti af almannavörnum.

Hann hefur verið í samskiptum við sóttvarnalækna og heilbrigðisyfirvöld á Austurlandi varðandi viðbúnað og viðbrögð. Hjá embættinu fengust þær upplýsingar að verið væri að vinna að leiðbeiningum um viðbrögð sem kæmu fyrir helgi. Þá hefði sá toppur sem mældist á Reyðarfiðri i´gær verið „mjög stuttvarandi" og því litlum vanda valdið.

Almenningi er bent á að hafa samband við heilsugæslustöðvar ef spurningar vakna varðandi áhrif mengunar frá eldgosum á heilsu.

Þá vinnur Veðurstofan að spám um hvert mengunin stefni hverju sinni og eru þær birtar á www.vedur.is. Þá má sjá tölur úr mælingum Umhverfisstofnunar á www.loftgaedi.is.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.