Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins opnuð á Seyðisfirði: Vonandi sjáum við stöðina vaxa

tydingarmidst utnr gbs 0003 webUtanríkisráðherra opnaði í gær starfsstöð þýðingamiðstöðvar ráðuneytisins á Seyðisfirði. Þrír starfsmenn munu starfa þar en stöðin er sú þriðja á landsbyggðinni. Fulltrúar ráðuneytisins segja þann mannauð sem til staðar sé hafa ráðið staðarvalinu.

„Það er ráðuneytinu mikið ánægjuefni að vera hér og ég vona að við getum séð starfsemina hér vaxa eins og annars staðar," sagði Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra við opnun stöðvarinnar í gær.

„Utanríkisráðuneytið flytur engar stofnanir út á land eins og sumir aðrir en við getum verið með útibú til að styrkja starfsemina á landsbyggðinni.

Við sjáum fram á aukningu í þýðingum og því var tilvalið að bæta við starfsstöð. Hér á Seyðisfirði hafa þýðendur starfað fyrir okkur í nokkurn tíma með mjög góðum árangri og það var ekki erfið ákvörðun að láta þetta gerast."

Arnbjörg Sveinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Seyðisfjarðar og varaformaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi sagði Austfirðinga fagna stöðinni.

„SSA hefur lengi sent frá sér ályktanir um flutning opinberra starfa út á land og þetta er þannig séð áfangi á þeirri leið. Væntanlega ályktum við áfram um það en við þökkum fyrir þetta framtak. Það er góður grunnur og við vonumst til að fleiri feti sömu slóð."

Fyrir þremur árum byrjaði fyrirtækið Sagnabrunnur á Seyðisfirði að þýða fyrir ráðuneytið í verktöku í tengslum við aðildarviðræður við Evrópusambandið. Þeirri vinnu var hætt eftir að viðræðunum var hætt en kunnátta var orðin til staðar og sambönd sem renndu stoðum undir útibúið á Seyðisfirði.

Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins var stofnuð árið 1990 vegna viðræðna um EES samninginn en meginhlutverk hennar er að þýða gerðir sem heyra undir EES.

Þá hafa starfsmenn hennar einnig sérhæft sig í að þýða alþjóðlega samninga, lagatexta, og aðra texta þar sem krafist er staðlaðs hugtakaforða. Einnig sinnir þýðingamiðstöðin tilfallandi verkefnum og hafa þannig þrír starfsmenn lagt Almannavörnum lið undanfarna daga við þýðingar á fréttatilkynningum og öðru efni vegna Bárðarbungu.

Í heild starfa 37 starfsmenn við þýðingar í utanríkisráðuneytinu, þar af sex á Akureyri, tveir á Ísafirði og núna þrír á Seyðisfirði.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.