Bryndís Skúladóttir landvörður kom úr Kverkfjöllum í nótt: Ákveðinn léttir að fara en líka söknuður að yfirgefa svæðið

Bryndis skuladottirJarðskjálftahrinan við Bárðarbungu heldur áfram og eru hræringarnar túlkaðar svo samkvæmt fréttum að kvika streymi upp undir Bárðarbungueldstöðina og leiti síðan út í innskotsgang til norðausturs undir Dyngjujökli. Bryndís Skúladóttir landvörður Vatnajökulsþjóðgarðs á austursvæði í Kverkföllum hefur verið á svæðinu að undanförnu en var kölluð heim eftir að ákveðið var að almannavarnir ákváðu að rýma svæðið í gærkvöldi.

„Í gærmorgun var ég komin snemma norður í Krepputungu í veggæslu og var í henni allt þar til kallið kom undir kvöld. Veggæslan fólst í því að upplýsa vegfarendur um ástandið á svæðinu um leið og maður bauð þá velkomna í þjóðgarðinn og hvatti þá til að njóta þessa fallega dags þrátt fyrir allt. Allir fengu skýr skilaboð um að leita eftir upplýsingum og fylgjast með stöðu mála hjá landvörðum og skálavörðum á viðkomandi svæði og skrá sig síðan hjá þeim út af svæðinu,“ sagði Bryndís þegar Austurfrétt hafði samband við hana.

„Ég hafði einmitt svo miklar áhyggjur af 5 rússneskum ungmennum sem virtust ekki hafa tekið mikið mark á mér fyrr um daginn, en ég fann þau inn við jökul og ók á eftir þeim út af svæðinu. það var léttir“.

Yfirveguð þegar skilaboðin komu

Bryndís fékk skilaboð frá almannavörnum um kvöldmatarleytið, nokkurn veginn í kjölfar útvarpsfrétta, þess efnis að hún yrði að rýma svæðið þar sem óvissustig hafi verið sett á hættustig.

„Ég var látin vita um leið að það var í raun ekki breytt ástand á Bárðarbungu sem var auðvitað léttir og auðveldaði bæði rýmingu og frágang á svæðinu. Ég var ótrúlega yfirveguð þegar skilaboðin komu. Það var allt við það sama á svæðinu svo ég og skálaverðirnir í Sigurðarskála komum þeim skilaboðum til gesta að klára bara að grilla að snæða í rólegheitum áður en þau legðu í hann veginn norður Krepputunguna. Við sögðum fólki að vera rólegt og aka varlega því Það keyrir engin hér um svæðið með aðra hönd á stýri", segir Bryndís.

„Þetta var bara undir stjórn allan tímann. Ég átti líka gott samstarf við þjóðgarðsvörð austursvæðis, hálendisfulltrúa, veðurstofu og almannavarnir. Við fengum nánar upplýsingar reglulega og vorum hvert með okkar hlutverk ef til eldgos kæmi“.

Allt frá smá titringi upp í mikinn hristing

Bryndís er búin að vera í Kverkfjöllum frá því í lok júní og hefur fundið vel fyrir jarðskjálftahrynunni á svæðinu ásamt því að fylgjast með ef einhverjar breytingar yrðu í náttúrunni .

„Ég fann töluvert fyrir skjálftunum sem voru allt frá smá titring upp í meiri hristing. Maður finnur mest fyrir þeim ef maður situr eða liggur. Ég man þegar ég fann fyrir þeim fyrsta stóra, ég vaknaði upp við hann um nótt og þá viðurkenni ég alveg að það kom smá óhugur í mig og ég hugsaði mér í þessu óvissuástandi lengst inní óbyggðum, hvað er ég búin að koma mér út í núna? Svo hætti maður að kippa sér upp við þetta nema þeir væru mun stærri, það voru t.d. nokkrir skjálftar um 3,0 sem ég fann vel“.

Vonar að gosið valdi sem minnstum skaða

Samkvæmt fréttum er atburðarásin í Bárðarbungu nú margfalt öflugri en sú sem varð í aðdraganda Gjálpargossins árið 1996. Þá mældust nokkur hundruð skjálftar en núna skipta þeir þúsundum. Vísindamenn túlka þetta svo að mikil kvika sé á ferðinni sem geti náð hratt upp til yfirborðs. En hvaða tilfinningu hefur Bryndís, mun gjósa?

„Það kæmi mér ekki á óvart eftir að hafa hlustað á og heyrt hvað jarðeðlisfræðingarnir hafa sagt um málið . Ég tel líklegt að það gerist en hvenær það er spurningin. Og ef það kemur gos vona ég bara að það komu um framarlega á sporði Dyngjujökuls svo það verði minni spjöll á náttúru og mannvirkjum“.

Bryndís var síðust út af svæðinu í gær og yfirgaf Kverkfjöll um miðnætti. Hún var komin út fyrir svæðið á Möðrudal um 2:20 í nótt og er nú engum leyft að fara um svæðið nema með sérstöku leyfi.

„Það var ákveðin léttir að fara, en líka söknuður að yfirgefa svæðið. Þetta er svo magnaður staður og það er svo mikill kraftur hérna, maður kemst ekki hjá því að bindast náttúrunni órjúfanlegum böndum. Við skulum vona að þetta fari allt saman vel“, segir Bryndís að lokum.
 

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.