Orkumálinn 2024

Voyager liggur við akkeri á Seyðisfirði með 450 manns innanborðs: Við vitum ekkert hvað hann ætlar að gera!

Voyage seydisfj2Skipstjóri skemmtiferðaskipsins Voyager hefur ákveðið að leggja ekki að landi á Seyðisfirði vegna hættu á að komast ekki frá landi aftur vegna veðurs. Um borð í skipinu eru 450 farþegar.

„Hann neitar bara að koma að bryggju“ segir Kristján Kristjánsson, hafnarstjóri á Seyðisfirði þegar Austurfrétt talaði við hann rétt í þessu. „Skil ekki þessa vitleysu og við getum ekkert gert hann ræður, við getum ekki stjórnað honum, hann bara þvertekur fyrir að leggja bátnum“.

Voyager átti að leggja við Seyðisfjarðarbryggju í morgun og vera við bryggju í tæpan sólarhring. Páll Ágústsson fór út í skipið sem lóðs en varð frá að hverfa þar sem skipstjórinn þverneitaði að leggja að þar sem hann er hræddur um að komast ekki frá höfninni í fyrramálið. Samkvæmt vedur.is er rigning og nokkur vindur á Seyðisfirði og mældist 8 m/s (14 m/s í hviðum) klukkan 11.

„Það er ekkert hræðilegt veður,“ segir Kristján. „Það er bara rigning og rok og jú það koma sterkar vindhviður annað slagið, en þetta er ekkert til að vera með svona mál yfir. Ég vil bara meina að þetta sé kunnáttuleysi. Það er bara þannig að þessir skipstjórar eru bara vanir að fá fjóra lóðsarabáta til að fylgja sér inn í hafnir þar sem þeir koma. Hann greinilega bara treystir sér ekki í þetta.“

Um borð í skipinu eru um 450 manns og hafa verið pantaðar 6 rútur í þrjár ferðir, tvær um bæinn og út á Skálanes, tvær rútur á Eskifjörð og tvær í Skriðuklaustur. Pantaður hefur verið matur á þessum stöðum og hlaupa viðskiptin á hundruð þúsunda og er því um nokkurt tap að ræða ef að skipstjórinn ákveður endanlega að leggja ekki skipunu.

„Við vitum ekkert, hann er bara þarna við akkeri utan við höfnina og heldur sér eiginlega þar sem mestu vindhviðurnar eru. En við vitum ekkert hvað hann ætlar að gera. Ég, leiðsögumenn og rútubílstjórar bíðum bara átekta í Ferjuhúsinu og bíðum spenntir eftir að sjá hvað gerist,“ segir Kristján að lokum.

Það var Seyðisfjarðarpósturinn sem greindi frá þessu í morgun

Mynd: Einar Bragi
 

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.