Þarf að segja hvað rauðu tölurnar þýða: Ekki verið að gefa Fjarðaáli slaka

alver alcoa april2013Formaður eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar segir skorta á að upplýsingar um flúormengun séu settar í samhengi sem almenningur skilur. Ekki sé verið að gefa Alcoa Fjarðaáli neinn slaka eða gagnrýna eftirlitsaðila þegar óskað sé eftir ítarlegri framsetningu gagna. Umhverfisstofnun og Matvælastofnun telja sig hafa sýnt af sér fagmennsku í upplýsingagjöf í tengslum við málið.

Eins og Austurfrétt greindi frá í gær sendi nefndin frá sér bókun í byrjun vikunnar þar sem sagt var að fréttaflutningur af flúormengun frá álveri Fjarðaáls í Reyðarfirði hefði vakið óþarfa ótta og yfirstjórnir eftirlitsaðilarnir Matvælastofnun og Umhverfisstofnun voru hvattar til að kanna hvort leggja þyrfti „aukna áherslu á faglega og gagnsæja miðlun upplýsinga til almennings," í samskiptum við fjölmiðla.

Eiður Ragnarsson, formaður nefndarinnar, segir bókunina ákall um að betur sé skýrt fyrir almenningi hvað tölurnar þýði en flúorgildi hafa mælst mjög há í Reyðarfirði þrjú sumur í röð.

„Í þeirra skýrslum eru alls konar tölulegar upplýsingar en við leikmennirnir, sem þekkjum lítið til, vitum ekki hvað þær þýða. Við sjáum bara rauðar tölur á blaði en vitum ekkert hvað þær tákna fyrir íbúa á Reyðarfirði."

Fulltrúar stofnananna tveggja mættu á fundinn og segir Eiður þá hafa fullvissað nefndarmenn um að engin hætta væri á ferðum fyrir íbúa Reyðarfjarðar.

Hann segir að ekki sé verið að gefa Fjarðaáli neinn slaka og bendir á að í bókuninni sé velt upp þeirri spurningu hvort herða eigi varúðarreglur gagnvart mögulegum umhverfisáhrifum álversins.

„Það er ljóst að niðurstöðurnar mælinganna eru vonbrigði og við gefum Alcoa engan slaka. Það er ekkert sem mælir gegn því að menn flytji fréttir af of mikilli mengun en það vantar samhengið. Það hefur aldrei komið fram að það sé engin hætta á ferðum þótt mælingarnar séu slæmar."

Stýrum ekki fréttaflutningi fjölmiðla

Hjá Matvælastofnun telja menn sig hafa sýnt fagleg og gagnsæ vinnubrögð við miðlun upplýsinga. Minnt er á að stofnun stýri ekki fréttaflutningi fjölmiðla.

„Matvælastofnun telur að í tengslum við fréttatilkynningar á vef stofnunarinnar, mast.is, og í samskiptum við fjölmiðla, hafi hún sýnt bæði fagleg og gagnsæ vinnubrögð," segir Eyrún Arnardóttir, héraðsdýralæknir.

„Starfsmenn stofnunarinnar hafa lagt sig fram um að svara bæði fjölmiðlum og einstaklingum sem að til hennar leita hratt og vel og allar fréttatilkynningar í tengslum við flúormengun á Reyðarfirði hafa verið birtar á forsíðu vefs Matvælastofnunar. Þær eru einnig sendar á póstlista sem og beint til fjölmiðla.

Hlutverk stofnunarinnar í þessu samhengi er að veita fræðslu og upplýsingar, en hún stýrir á engan hátt fréttaflutningi fjölmiðla til almennings. Þeim sem vilja kynna sér betur ráðleggingar stofnunarinnar er bent á nýjustu frétt hennar á heimasíðu frá 13. ágúst og ítarefni sem þar er jafnframt aðgengilegt."

Tökum ábendingum um umbætur fagnandi

Á vef Umhverfisstofnunar er að finna sérstakan dálk um upplýsingar um flúorinn í Reyðarfirði þar sem allar eftirlitsskýrslur, mælingar og niðurstöður vöktunar eru þar aðgengilegar.

Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, segist í svari við fyrirspurn Austurfréttar ekki túlka bókunina á þann hátt að nefndin saki stofnunina um að hafa veitt villandi upplýsingar.

„Umhverfisstofnun vinnur samkvæmt vottuðu gæðakerfi og er því sífellt að leita leiða til að bæta sína starfsemi og tekur öllum ábendingum um slíkt fagnandi," segir hún.

Í evrópski úttekt á innleiðingu umhverfislöggjafar hafi Umhverfisstofnun verið talin leiðandi í álfunni í upplýsingagjöf til almennings í gegnum vef og til fjölmiðla.

Flúor í of miklu magni getur valdið eitrunaráhrifum og safnist það upp í líkamanum veldur það ofvexti beina. Til að þessi áhrif náist þarf hins vegar að innbyrða ógrynni af efninu. Þannig á að vera óhætt að borða ber beint upp frá jörðinni hvar sem er í Reyðarfirði.

Matvælastofnun hefur hins vegar beint þeim tilmælum til þeirra sem ekki vilja innbyrða flúor að skola matjurtir úr Reyðarfirði fyrir neyslu.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.