Allir geislafræðingar hjá HSA hafa sagt upp: Þetta er alvarleg staða

hsalogoÞeir þrír geislafræðingar sem starfa hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) sögðu upp störfum í byrjun apríl. Þeir fara fram á hækkun grunnlauna í samningi sem ekki hefur verið endurnýjaður síðan árið 2006. Framkvæmdastjóri lækninga vonast til að lausn náist eftir páska.

Samningaviðræður á milli geislafræðinganna og HSA fóru af stað upp úr áramótum. Lítið hefur gengið á þeim fundum og sögðu þeir störfum sínum lausum að loknum síðasta fundi í lok mars.

„Mér fannst ekki bera mikið í milli þegar við fórum frá borði en engu að síður fannst þeim bilið of breitt til að þau gætu hugsað sér að halda áfram," segir Katrín Sigurðardóttir, formaður félags geislafræðinga.

Einn geislafræðingur skiptir viðveru sinni á milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar í 70% stöðu og tveir skipta með sér 120% stöðu og sólarhringsvöktum á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað.

Katrín segir mikið vinnuálag hafa mikil áhrif á geislafræðingana. „Það liggja margir tímar að baki launatékkanum. Það er mikið bakvakta- og vinnuálag og binding hjá geislafræðingum, sérstaklega þeim sem starfa úti á landi. Kröfur þeirra snúast um hærri grunnlaun þannig fólk þurfi ekki endalaust að vera á svona vöktum."

Geislafræðingar gera stofnanasamning við hverja stofnun fyrir sig. Samningur þeirra við HSA var síðast endurnýjaður árið 2006.

Uppsagnarfrestur eins þeirra rennur út í lok apríl en hinna tveggja í lok júní og ganga þeir þá út þá ef ekki nást samningar. „Þetta er alvarleg staða. Þetta er fámennur en mikilvægir hópur og góðir starfsmenn," segir Pétur Heimisson, framkvæmdastjóri lækninga hjá HSA.

Viðræður hafa legið niðri síðan í lok mars en þráðinn á að taka upp að nýju eftir páska. „Ég vona að við finnum einhvern flöt á þessu í sameiningu," segir Pétur. Undir það tekur Katrín. „Vonandi tekst að finna lausn á þessu eftir páskana."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.