Jens Garðar: Gott að geta sest niður og talað hreint út við borðið

jens gardar helgason mai12Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar, segir það hafa verið gagnlegt að hitta forsvarsmenn Seyðisfjarðarkaupstaðar á fundi í gær til að ræða framtíð siglinga ferjunnar Norrænu. Ýmsar spurningar hafi vaknað eftir fundinn.

„Þessi fundur var að frumkvæði Fjarðabyggðar. Okkur þótti við hæfi að hittast frekar en að það væru endalausar skeytasendingar í fjölmiðlum um þetta mál og það var gott að geta sest niður og talað hreint út við borðið," segir Jens.

Á fundinum, sem stóð í um þrjá klukkutíma, hittust bæjarráð, bæjarstjórar og forsvarsmenn hafna sveitarfélaganna tveggja.

„Þetta var að mörgu leyti mjög góður fundur en það sem stóð upp úr hjá mér var að það vöknuðu fleiri spurningar í mínum huga um hvers vegna ferjan hugsi um að færa sig, hvort það sé bara Fjarðarheiðin eða eitthvað meira. Svörin við þeim eru frekar hjá núverandi og fyrrverandi sveitarstjórnarmönnum á Seyðisfirði heldur en okkur."

Smyril-Line, útgerð Norrænu, sendi hafnarstjórn Fjarðabyggðar beiðni í byrjun nóvember um hvort hægt væri að sigla ferjunni þangað. Gert var gróft kostnaðarmat fyrir uppbyggingu aðstöðu á Eskifirði, Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði. Fulltrúar Smyril-Line kynntu sér kostina þrjá og völdu Eskifjörð sem fyrsta kost.

Þegar það var ljóst var samþykkt af hafnarstjórn og bæjarráði Fjarðabyggðar að fara í formlegar viðræður. „Ég veit ekkert hver það leiðir," segir Jens.

Frekar að beina spjótum sínum að fyrirtækinu

Jens segir að á fundinum hafi enn og aftur verið farið yfir upphaf málsins. „Við höfum alltaf verið með allt upp á borðum, gagnvart Seyðfirðingum og öðrum. Það er mjög miður hvernig margir fara hamförum á Facebook með dylgjum og óhróðri og flokka alla íbúa Fjarðabyggðar undir einn hatt. Ef menn vilja beina reiði sinni eitthvað er betra að þeir nafngreini mig frekar en íbúa heils sveitarfélags."

Þá segir Jens að farið hafi verið yfir stöðu Sambands sveitarfélaga á Austurlandi í málinu, samþykktir þess um samgöngumannvirki og „misjafnan skilning á þeim."

Jens telur Seyðfirðinga hafa beint kröftum sínum í ranga átt með að vísa málinu til SSA og gagnrýna nágranna sína. „Vandinn felst í að þarna er einkafyrirtæki að skoða færslu á sinni starfsemi. Það er ekkert bundið af samþykktum SSA. Þeir eiga að einbeita sér að Smyril-Line.

SSA var lengi búið að álykta að aðalfragthöfn Austurlands skyldi vera á Reyðarfirði en Eimskip fór svo til Eskifjarðar. SSA er leiðarljós en við verðum alltaf að taka tillit til þess hvar fyrirtækin ákveða að setja sig niður."

Jens segir einnig að fulltrúar Fjarðabyggðar hafi „ekki haft hugmyndum að þetta væri í vændum" þegar þeir sátu síðasta SSA-þing þar sem samþykkt var að aðal ferju- og skemmtiferðahöfn Austurlands skyldi vera á Seyðisfirði.

Ljóst er að einhverja aðstöðu þarf að byggja upp í Fjarðabyggð flytjist ferjan þangað. Kostun á framkvæmdunum er óljós nema að ekki er útlit fyrir að féð komi frá ríkinu.

„Mér skilst að Seyðfirðingar hafi fengið þingmenn kjördæmisins til að lýsa því yfir að þeir styðji ekki fjárveitingu til uppbyggingar ferjuaðstöðu í Fjarðabyggð," segir Jens sem telur þá yfirlýsingu hafa verið „skrýtinn gjörning" bæði af hálfu bæjarstjórnar Seyðisfjarðar og þingmannanna og aftur ranga forgangsröðun af hálfu þeirra fyrrnefndu.

Á fundinum var farið yfir fleiri mál, svo sem jarðgöng til Seyðisfjarðar. „Fyrir mitt leyti þá er það skýrt forgangsatriði að rjúfa einangrun Seyðisfjarðar en á meðan það er ekki búið að ákveða hvar þau verði þá hef ég það málfrelsi að segja að menn ættu frekar að einbeita sér að Samgöngum heldur en Fjarðarheiðagöngum.

Á það hafa ýmsir sérfræðingar bent. Við verðum að tengja betur saman þetta litla 10.000 manna samfélag sem er á Austurlandi."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.