Minntust þess að tuttugu ár eru liðin frá björgunarafrekinu í Vöðlavík

minningarathofn vodlavik jenniÞess var minnst á Eskifirði á sunnudag að tuttugu ár eru liðin frá því að björgunarþyrlur bandaríska hersins björguðu sex skipverjum af Goðanum við afleitar aðstæður í Vöðlavík. Einn skipverji lést þegar skipið fékk á sig brotsjó.

Það var að morgni mánudagsins 10. janúar árið 1994 sem brotsjór gekk yfir björgunarskipið Goðann í Vöðlavík með þeim afleiðingum að það drapst á vél skipsins og öðrum tækjum þannig það rak stjórnlaust upp á grynningar.

Einn skipverja, Geir Jónsson, drukknaði eftir að brotsjórinn hreif hann með sér.Goðinn var að undirbúa björgun Bergvíkur VE sem hafði strandað þar skömmu fyrir jólin 1993.

Veður og aðstæður voru þannig að ekki var hægt að bjarga skipverjum af Goðanum af sjó eða landi og þyrla Landhelgisgæslunnar þurfti að snúa við vegna ísingar.

Tvær þyrlur bandaríska hersins komust alla leið og unnu mikið björgunarafrek við afleitar aðstæður. „Aðstæður voru ógnvekjandi. Goðinn lá í briminu um 150 metra frá ströndinni og 8-9 metra háar öldur brutu á honum þegar við komum að strandinu.

Aðstæður mannanna um borð voru hinar verstu. Þeir ríghéldu sér í reykháf skipsins, handrið og annað það sem var fast á brúarþakinu," sagði Sills undirfursti, yfirmaður flugsveitarinnar í samtali við Morgunblaðið sem kom út daginn eftir.

Þyrlurnar lentu um miðjan dag með skipbrotsmenn á bílastæðinu fyrir utan gamla Kaupfélagið í miðbæ Neskaupstaðar. Áhafnir þeirra fengu síðar viðurkenningar, jafnt hérlendis sem í Bandaríkjunum, fyrir björgunina. Mikil umræða varð í kjölfar slyssins um nauðsyn þess að bæta þyrlukost Landhelgisgæslunnar.

Varðskipið Týr dró Bergvík af strandstað nokkrum dögum síðar, lítt skemmda, en Goðinn sökk í sandinn í Vöðlavík.

Á sunnudag var haldin minningarafhöfn við minnisvarðann um drukknaða sjómenn í miðbæ Eskifjarðar. Eftir athöfnina var boðið upp á kaffi og vöfflur hjá Björgunarsveitinni Brimrúnu þar sem þeir Sævar Guðjónsson og Hlífar Þorsteinsson, sem voru á vettvangi í janúar 1994, sögðu frá reynslu sinni.

Blómsveigur lagður að minnisvarðanum um drukknaða sjómenn. Mynd: Jens Garðar Helgason

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.